Kjarninn fylgdist með gangi mála í Scandinavian House á 38. stræti á Manhattan í New York, í gærkvöldi, þar sem norrænir frumkvöðlar kynntu fyrirtæki sín fyrir fjárfestum, fjölmiðlafólki og öðrum sem áhuga hafa á atvinnulífi Norðurlanda. Þar á meðal voru Sesselja Vilhjálmsdóttir frá Tagplay og Diðrik Steinsson frá Breakroom og stóðu þau sig með mikilli prýði við að kynna sín fyrirtæki.
Á Norðurlöndunum búa 26 milljónir manna, en þrátt fyrir það hefur krafturinn í frumkvöðlaumhverfinu þar vakið mikla athygli í Bandaríkjunum. Sérstaklega er krafturinn mikill í Stokkhólmi í Svíþjóð þar sem miklir fjármunir hafa farið til frumkvöðla ekki síst frá Bandaríkjunum. Má þar nefna Spotify, sem náði meðal annars í 526 milljónir Bandaríkjadala fyrr á árinu, nærri 70 milljarða króna, og Minecraft, sem Microsoft keypti fyrir 2,5 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 300 milljarða króna, í fyrra. Þetta hefur síðan haft mikil áhrif á aðra frumkvöðlastarfsemi í Svíþjóð og verið mikil hvatning fyrir þá sem vilja stofna fyrirtæki.
Það var líka ánægjulegt að sjá hversu öflugar konurnar eru á Norðurlöndunum eru þegar kemur að frumkvöðlastarfsemi, því sex af tíu fyrirtækjum sem voru með kynningar voru stofnuð af konum. Í Bandaríkjunum eru því miður ekki nægilega margar konur í framvarðasveit þeirra sem fá fjármagn frá fjárfestum, þó enginn efist um að þær standi í það minnsta jafnfætis körlum þegar að þekkingu kemur.
Norðurlöndin eru framarlega í þessu, eins og mörgu öðru...