Atvinnuleysi nam 4,6 prósentum í febrúar, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. 8.600 manns voru án vinnu í mánuðinum. Það er aðeins hærra hlutfall atvinnuleysis en var í sama mánuði í fyrra.
Samkvæmt rannsókninni voru 188.100 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði í febrúar, sem jafngildir 81 prósenta atvinnuþátttöku. Af þessum 188 þúsund voru 179.500 starfandi og sem fyrr segir 8.600 án vinnu og í atvinnuleit.
Þátttaka á vinnumarkaði jókst milli ára um tvö prósentustig og fjölgun vinnuafls var 6.900 manns. Þar af fjölgaði starfandi fólki um 6.100 og atvinnulausum fjölgaði um 800. Því jókst hlutfall starfandi fólks um 1,7 prósentustig en hlutfall atvinnulausra um 0,2 stig.
Fólki utan vinnumarkaðar fækkaði
Þegar atvinnuleysi er árstíðaleiðrétt var fjöldi fólks á vinnumarkaði 192.100 í febrúar, sem jafngildir 82,6 prósenta atvinnuþátttöku. Það er 1,2 prósentustigum hærra en í janúar. Atvinnulausum fjölgaði um 1.300 frá því í janúar miðað við árstíðaleiðréttingu, og voru 9.100. Miðað við þetta var atvinnuleysi 4,7 prósent í febrúar samanborið við 4,1 prósent í janúar. Starfandi fólk var 183 þúsund eða 78,7 prósent í febrúar, sem eru 1.100 fleiri en í janúar.
Hlutfall þeirra sem eru starfandi jókst því um 0,7 prósentustig og atvinnuleysi jókst um 0,6 stig. Í hópi þeirra sem eru utan vinnumarkaðar fækkaði um þrjú þúsund manns.
Með árstíðaleiðréttingu er leitast við að aðgreina sveiflur eftir árstímum frá öðrum breytingum og gerir samanburð milli samliggjandi mánaða raunhæfari.