22 þingmenn stjórnarandstöðunnar, úr öllum flokkum, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um aukinn stuðning við móttöku flóttafólks á Íslandi. Þingmennirnir vilja að ríkisstjórnin hefji þegar í stað undirbúning á móttöku fleiri kvótaflóttamanna en nú hefur verið ákveðið að gera í samvinnu við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Að minnsta kosti eigi að bjóða 100 flóttamönnum dvöl á Íslandi á þessu ári, 200 á næsta ári og aftur 200 árið 2017. Þá verði einnig unnin áætlun um móttöku kvótaflóttafólks sem taki gildi frá árinu 2018, „þar sem tryggt verði að Ísland taki á móti flóttafólki til samræmis við íbúafjölda og efnahag landsins.“ Leggja eigi sérstaka áherslu á að taka á móti fólki frá Sýrlandi og annars staðar frá, fólki sem sé í sambærilegri stöðu og viðkvæmir hópar flóttafólks sem tekið hefur verið á móti undanfarin ár.
Þá eigi, vegna langvarandi stríðsástands í Sýrlandi, jafnframt að vinna að aukinni fjölskyldusameiningu Sýrlendinga, meðal annars með því að heimila tímabundið veitingu dvalarleyfa til aðstandenda Sýrlendinga sem búsettir eru á Íslandi.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að taka á móti 50 kvótaflóttamönnum, 25 á þessu ári og 25 á næsta ári.
„Ísland verður að leggja meira af mörkum vegna þess gríðarlega fjölda flóttafólks sem er í heiminum og veita fórnarlömbum stríðsátaka skjól og vernd,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni, sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar, er fyrsti flutningsmaður að. Aukinn fjöldi kvótaflóttamanna sé ein leið til þess að leggja meira af mörkum.