Opinber gjöld voru 58 milljörðum krónum meiri en skatttekjur á fyrsta fjórðungi ársins. Þessi halli jafngildir 8,2 prósentum af landsframleiðslu fyrir sama tímabil. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu um rekstur hins opinbera, sem birtust í dag.
Samkvæmt tölunum kemur nær allur hallinn, eða 49 milljarðar króna, frá ríkissjóði, en halli sveitarfélaga á sama tíma nam 8,4 milljörðum króna og hallinn á almannatryggingakerfinu nam 900 milljónum króna.
Ef miðað er við sama ársfjórðung í fyrra sést að skattar á tekjur og hagnað hafa aukist töluvert, eða um 18 milljarða króna. Skattar á vörur og þjónustu voru líka um 7,6 milljörðum krónum meiri, en heilt yfir jukust tekjur hins opinbera um 13 prósent frá fyrsta ársfjórðungi 2020.
Heildarútgjöld hins opinbera jukust hins vegar enn meira, eða um 14 prósent, á sama tímabili. Þar stafar aukningin fyrst og fremst af auknum félagslegum tilfærslum tilfærslum til heimila og hærri launagreiðslna.
Í tilkynningu Hagstofu segir að áhrif COVID-19 á fjármál hins opinbera séu enn mikil og beri uppgjör í rekstri hins opinbera á síðasta ársfjórðungi þess merki. Áhrifin komi meðal annars fram í útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna aukins atvinnuleysis, vegna greiðslu launa í sóttkví, sérstaks íþrótta- og tómstundastyrks til barna og sérstakra aðgerða í vinnumarkaðsmálum.