Alls er 80 prósent fólks á aldrinum 18-29 ára óánægð með Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann nær þó ekki að vera óvinsælasti ráðherrann hjá þessum hópi því 82 prósent hans er óánægður með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Capacent sem birtust var í morgun.
Þegar allir aldurshópar eru skoðaðir er mest ánægja með störf Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra (30 prósent), Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra (26 prósent) og Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra (25 prósent). Mest óánægja mældist með störf Hönnu Birnu Kristjánsdóttur (67 prósent), Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (63 prósent), og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (62 prósent).
Eldri karlmenn frá landsbyggðinni með háar tekjur
Capacent birtir afstöðu þeirra sem tóku þátt í könnuninni eftir aldri gagnvart sumum ráðherranna. Ungt fólk er almennt óánægðara með ráðherranna en eldra fólk. Þeir sem eru óvinsælastir hjá hópnum 18-29 ára eru Hanna Birna (82 prósent óánægð með hana) og Sigmundur Davíð (80 prósent óánægð með hann). Mest ánægja er hjá ungu fólki með störf Bjarna Benediktssonar, en samt eru einungis 17 prósent 18-29 ára ánægð með störf hans og 68 prósent óánægð. Alls eru 15 prósent ánægð með Eygló Harðardóttur en 47 prósent óánægð með hana.
Samandregið þá er meiri ánægja og minni óánægja með störf ráðherra ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hjá körlum frekar en konum, fólk á landsbyggðinni er ánægðara en fólk á höfuðborgarsvæðinu og tekjuhærri eru ánægðari en tekjulægri. Athygli vekur að þegar könnuð er afstaða fólks eftir menntun er lang minnst ánægja og mest óánægja með störf ráðherranna hjá fólki með háskólapróf.