94 einstaklingar hafa óskað hælis á Íslandi það sem af er ári. Á sama tíma í fyrra var fjöldinn 70 einstaklingar. Þetta kemur fram í máli Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, í Morgunblaðinu í dag.
Kristín segir að aukningin hafi ekki komið á óvart og búist sé við meira en tvöfalt fleirum í ár. Flestir hælisleitendurnir eru frá Albaníu, 26 talsins. Tólf hælisleitendur eru frá Sýrlandi og sex frá Makedóníu. Einnig hafa komið einstaklingar frá Pakistan, Íran og Úkraínu.
Flestir hælisleitendanna eru karlar, 55 af 94. 29 konur eru í hópi hælisleitenda og tíu börn á aldrinum eins til sautján ára. Kristín segir í samtali við Morgunblaðið að hún hafi ekki haldbærar tölur um það hversu margir umsækjendur um vernd séu hér á landi, af því að hluti fólksins sé með vinnu og á eigin framfærslu. „Þann 10. júlí þáðu 185 einstaklingar aðstoð frá íslenska ríkinu á þessum forsendum,“ segir hún.
Verið er að ganga frá nýju húsnæði fyrir hælisleitendur á Grensásvegi í Reykjavík, en þar munu 20 til 24 karlmenn vera búsettir. Áætlað er að það opni í nóvember.
Einnig er unnið að opnun gistiheimilis í Bæjarhrauni í Hafnarfirði, en þar verður einnig tímabundin móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það er tilraunaverkefni en gert er ráð fyrir því að varanleg miðstöð verði stofnuð á næsta ári. Að lokinni dvöl í móttökumiðstöðinni er áætlað að fólk fari til Reykjavíkur eða Reykjanesbæjar, þeirra sveitarfélaga sem sjá um hælisleitendur á meðan þeir bíða úrlausnar sinna mála. „Hér er um að ræða þarfa þjónustu og viðbót við fólk sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi og mikilvægt að vel sé staðið að því,“ segir Kristín við Morgunblaðið.