Áhyggjur forstjóra ÁTVR, Ívars J. Arndal, af aukinni sölu á neftóbaki sem fyrirtækið framleiðir og selur hefur vakið athygli. Í inngangi ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2014 viðraði Ívar þær skoðanir sínar og sagðist hafa áhyggjur af því að hin aukna neysla sé helst í munn. „Það er siðferðileg spurning hvenær íslenska neftóbakið, sem búið er að framleiða eftir sömu uppskrift frá því fyrir stríð, er raunverulega orðið að munntóbaki og þar með ólöglegt,“ sagði Ívar.
Nú er vert að taka fram, fyrir þá örfáu sem ekki vita, að helsta tekjulind ÁTVR er sala á áfengi. Þar á eftir kemur sala á sígarettum. Engum siðferðislegum spurningum um samfélagsvá þessarra vímuefna er velt upp í inngangi forstjórans.
Í lögum um verslun með áfengi og tóbak er hlutverk ÁTVR skilgreint. Þar segir meðal annars að starfsemin skuli miðuð við „að hún sé sem hagkvæmust og afli tekna sem nægi til að greiða rekstrarkostnað og skila hæfilegum arði til ríkissjóðs“. Sala neftóbaksins, sem er heimil samkvæmt lögum sem Alþingi setur, skilaði ÁTVR fimmtungi meira í kassann í fyrra en árið 2013, alls um 115 milljónum króna. Í þeim lögum er heldur ekkert að finna um siðferðislegt valdboð ÁTVR. Þar er reyndar að finna grein um samfélagslega ábyrgð. Í henni er hins vegar ekkert minnst á tóbak heldur segir að „ÁTVR starfar með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi og vinnur gegn skaðlegri neyslu áfengis.“
ÁTVR er í þeirri einkennilegu stöðu að engin stjórn er yfir fyrirtækinu heldur heyrir það beint undir ráðherra. Stjórnendur þess lúta ekki stjórnarvaldi fulltrúa löggjafans líkt og önnur fyrirtæki í opinberri eigi, eins og til dæmis Landsvirkjun eða RÚV. ÁTVR er því nokkurs konar ríki í ríkinu.
Er til of mikils mælst að hinir valdamiklu stjórnendur fyrirtækisins starfi einfaldlega eftir þeim lagaramma sem þeim er settur en láti löggjafarþingið, sem smíðar rammann utan um starfsemina, um að velta fyrir sér siðferðislegum spurningum sem allar óhollu vörurnar sem fyrirtækið selur?