Áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli voru rúmlega 50 prósent fleiri í febrúar 2015 en í sama mánuði árið 2013. Þá voru þær 486 en voru nú 764 talsins. Þetta kemur fram í frétt vefsíðunnar Túristi.is um málið.
Langmesta aukningin er hjá Icelandair, langstærsta flugfélagi landsins, og lágfargjaldarrisanum EasyJet. Tvær af hverjum þremur ferðum sem í boði voru frá Keflavík í síðasta mánuði voru á vegum Icelandair og fór flugfélagið alls nærri fimm hundruð ferðir til útlanda. Hlutfallslega bætir EasyJet langflestum ferðum við starfsemi sína hérlendis, en alls tóku vélar félagsins 106 sinnuym á loft frá Keflavík í febrúar síðastliðnum. Það er um það bil tvisvar sinnum oftar en í sama mánuði árið áður.
Alls flugu níu flugfélög frá Keflavík í febrúar. Umsvif átta þeirra jukust í mánuðinum. Eina flugfélagið sem dró úr brottförum sínum var WOW air. Í febrúar 2014 flaug félagið 100 sinnum frá Keflavík en 91 sinni í síðasta mánuði.
Vægi 5 umsvifamestu flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli í brottförum talið samkvæmt útreikningum túristi.is
Flugfélag | Hlutdeild febrúar 2015 | Hlutdeild febrúar 2014 | |
1. | Icelandair | 64,9% | 69,2% |
2. | easyJet | 13,9% | 9,0% |
3. | WOW air | 11,9% | 16,1% |
4. | SAS | 2,7% | 2,1% |
5. | Primera Air | 2,1% | 0,7% |