Viðbrögð stjórnvalda við flóttamannakrísunni virðast við fyrstu sýn vera til fyrirmyndar. Þau verða auðvitað útfærð frekar en það skiptir máli að grípa til aðgerða og gera það fljótt, eins og nú er verið að gera.
Eitt af því sem íslensk stjórnvöld ætla líka að gera er að beita sér fyrir málinu á alþjóðavettvangi og hvetja önnur ríki til dáða. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ætlar til að mynda að taka málið upp á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í næstu viku. Og skilja má á yfirlýsingum stjórnvalda að þau ætli ekki að láta þar við sitja.
Þetta er mjög jákvætt. Íslensk stjórnvöld verða líklega aldrei þau sem gefa mest eða taka á móti flestum, en þau eiga einmitt að láta til sín taka með þessum hætti á alþjóðavettvangi. Gera sitt vel, eins og nú á að gera, og nýta svo rödd sína til góðs.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.