Útreikningar efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA) eru byggðir á misskilningi og sérfræðingar þess ættu að vita betur. Þetta segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. Hann segir stefnubreytingu samtakanna í tengslum við áhrif kjarasamninga á verðbólgu koma spánskt fyrir sjónir og veltir fyrir sér hvort SA hafi notað vinnu Seðlabankann síðasta vor, um áhrif launahækkana vegna gerð kjarasamninga, í hræðsluáróðursskyni.
Efnahagssvið SA, sem Ásdís Kristjánsdóttir veitir forstöðu, birti í dag graf á samskiptamiðlinum Twitter sem sýnir hvernig launavísitala Hagstofu Íslands þarf að þróast það sem eftir lifir árs svo að nýjasta efnahagsspá Seðlabankans um launaþróun rætist. Í grafinu samtvinnar SA nýjustu upplýsingar um þróun launavísitölunnar annars vegar og nýjustu efnahagspá Seðlabanka Íslands hins vegar. Niðurstaða SA er sú að laun þurfi að hækka mun meira milli mánaða en þau hafa gert allt frá ársbyrjun 2014 til þess að spá Seðlabankans haldi, eða um þrjú prósent í hverjum mánuði. Í grein á vefsíðu samtakanna er spá Seðlabankans um launaþróun sögð fráleit.
Laun hækka um 10,4% að meðaltali á árinu 2015 skv. nýrri spá SÍ, þetta þýðir að mánaðarhækkun launa verði 3% út árið. pic.twitter.com/VVE2YIw5q8
— Efnahagssvið SA (@EfnahagssvidSA) August 21, 2015
Í samtali við Kjarnann segir Þórarinn þessa útreikninga SA ekki geta staðist og að þeir séu byggðir á misskilningi. Þeir séu ekki útreikningar Seðlabankans. Í nýjustu Peningamálum, ársfjórðungslegu spáriti bankans, er því spáð að laun hækki um 10,4 prósent á þessu ári. Sú spá snýr þó að engu leyti að launavísitölu Hagstofunnar, segir Þórarinn, heldur launakostnaði miðað við þjóðhagsreikninga. Í spá bankans sé tekið tillit til kjarasamninga sem undirritaðir voru í vor en í þeim hefur meðal annars verið samið um laun sem gilda afturvirkt. Launavísitala Hagstofunnar komi því málinu ekkert við.
Launavísitala Hagstofunnar byggir á gögnum úr launarannsókn Hagstofunnar. Hún hefur hækkað um nær átta prósent á síðustu tólf mánuðum og um 5,8 prósent frá áramótum.
Þórarinn bendir á að enn eigi eftir að bætast í bunka nýrra kjarasamninga á þessu ári, þar sem launahækkanir geti orðið afturvirkar, og hafi áhrif á næstu spár Seðlabankans sem eru uppfærðar ársfjórðungslega. Í spánni er til að mynda ekki búið að taka tillit til nýlegrar niðurstöðu gerðardóms í kjaradeilu ríkisins, BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Hræðsluáróður Samtaka atvinnulífsins?
Þórarinn furðar sig einnig á stefnubreytingu Samtaka atvinnulífsins, en í vor óttuðust samtökin mjög að ef samtök vinnuveitenda yrðu við háum launakröfum launþegahreyfinga þá myndi verðbólga vaxa hratt. „Í kjarasamningunum aðstoðuðum við [Seðlabankinn] stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins við að meta efnahagsleg áhrif launahækkana. Það höfum við gert áður. Við birtum í peningamálum í maí sviðsmynd sem byggði á þessari vinnu,“ segir Þórarinn og bendir á að þá hafi SA gagnrýnt sviðsmynd Seðlabankans fyrir að vanmeta verðbólguáhrif launahækkana.
Það komi spánskt fyrir sjónir að Samtökin atvinnulífsins dragi nú spárSeðlabankans um launahækkanir og verðbólgu í efa. Hann veltir fyrir sér hvort vinna Seðlabankans síðastliðið vor hafi verið notuð af SA í hræðsluáróðri.
Samtök atvinnulífsins brugðust í gær við 0,5 prósentu stýrivaxtahækkun Seðlabankans á miðvikudag og sögðu ákvörðun peningastefnunefndar misráðna. Ein af þremur ástæðum fyrir þeirri skoðun séu „fráleitar“ spár Seðlabankans um launaþróun á þessu ári.
„Forsendur Seðlabankans um hækkun launa á þessu ári eru langt umfram mat samningsaðila á þeirri hækkun launakostnaðar sem muni hljótast af nýgerðum kjarasamningum, að því gefnu að aðrir hópar á vinnumarkaði semji á sambærilegum nótum. Þannig gera SA ráð fyrir því að launavísitala á almennum vinnumarkaði hækki um 6,0-6,7% milli ársmeðaltala 2014 og 2015, allt eftir því hversu mikið launaskrið verður það sem eftir lifir árs. Seðlabankinn gerir hins vegar í sínum spám ráð fyrir 10,4% hækkun launavísitölunnar í heild. Ef laun á almennum vinnumarkaði ættu að hækka um 10,4% milli ársmeðaltala þyrftu laun á almennum vinnumarkaði að hækka um allt að 15% á síðari hluta þessa árs, sem er vitanlega fráleitt. Þessi spá Seðlabankans um hækkun launavísitölunnar milli áranna 2014 og 2015 getur því einungis skýrst af því að bankinn geri ráð fyrir að launaskrið nái áður óþekktum hæðum eða að launahækkanir hjá hinu opinbera verði miklu meiri en á almennum markað,“ segir í grein á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins.