Þann 1. febrúar í fyrra voru 683 lögreglumenn, þar með taldir héraðslögreglumenn og afleysingamenn, starfandi í lögreglunni. Þar af voru 87 konur, eða 12,7 prósent allra lögreglumanna. Hlutfall kvenna innan lögreglunnar hækkaði um eitt prósentustig á milli ára. Þetta kemur fram í árlegri samantekt um jafnréttismál lögreglunnar fyrir árið 2013.
Þá kemur fram í samantektinni að af fimmtíu yfirlögregluþjónum og aðstoðaryfirlögregluþjónum var aðeins ein kona, en hún gegndi stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns. Af 35 aðalvarðstjórum var sömuleiðis aðeins ein kona starfandi, eða 2,9 prósent þeirra, og af 135 varðstjórum voru einungis sjö konur starfandi, eða 5,2 prósent. Hlutfall kvenna var hæst meðal lögreglufulltrúa, eða 18,9 prósent, en af 90 lögreglufulltrúum voru 17 konur starfandi. Af 114 rannsóknarlögreglumönnum voru 18 þeirra konur, eða 15,8 prósent, en flestar konur voru starfandi sem almennir lögreglumenn, eða 38 konur af 228 lögreglumönnum, hlutfall kvennanna þar var því 16,7 prósent.
Við vinnslu samantektarinnar bárust aðeins upplýsingar frá tíu lögregluembættum á landsvísu af átján. Í upplýsingunum kemur meðal annars fram að af þeim 40 starfsmönnum sem sátu í yfirstjórn þessara tíu lögregluembætta, voru níu konur eða 22,5 prósent, á mótii 31 karli (77,5 prósent). Af 530 lögreglumönnum voru 463 karlar í fullu starfi (87,4 prósent) á móti 67 konum, eða 12,6 prósent. Ekki var tilkynnt um neitt tilvik eineltis eða kynferðislegrar áreitni á árinu 2013 samkvæmt upplýsingum fyrrgreindra tíu lögregluembætta.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði fyrir tæpu ári síðan að lágt hlutfall kvenna í lögreglunni væri áhyggjuefni. Í byrjun júlí skoraði svo Kvennréttindafélag Íslands á Ríkislögreglustjóra að fjölga konum innan lögreglunnar, og þá sérstaklega í yfirmannsstöður innan embættisins. Í apríl var önnur konan gerð að aðstoðaryfirlögregluþjóni, og gegna því tvær konur stöðunni í dag. Þá skipaði innanríkisráðherra Sigríði Björk Guðjónsdóttur í stöðu lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í lok júlí.