Búast má við skattahækkunum eða niðurskurði í opinberum útgjöldum að andvirði 36 milljarða króna á tímabilinu 2024-2027 til að draga úr skuldasöfnun hins opinbera. Þetta kemur fram í nýbirtri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm árin.
Bætt afkoma minnkar þörfina á aðhaldi
Ríkisstjórnin gerði einnig ráð fyrir þessum aðhaldsaðgerðum í síðustu fjármálaáætlun sinni sem gefin var út í fyrra, en þá var búist við að þær myndu hefjast á næsta ári og nema um 34 milljörðum króna á hverju ári.
Í nýju fjármálaáætluninni er nú búist við að aðgerðirnar, sem eru kallaðar afkomubætandi ráðstafanir, hefist ekki fyrr en á þarnæsta ári. Enn frekar er áætlað umfang þeirra mun minna en áður, en búist er við að þær muni nema níu milljörðum króna á hverju ári.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði Kjarnanum í fyrrahaust að þörfin á aðhaldsaðgerðum hefði minnkað töluvert, í ljósi þess að afkomuhorfur ríkissjóðs hefðu batnað töluvert. Samkvæmt Bjarna skýrðist bætta afkoman mest af auknum skattekjum, en einnig myndi áframhaldandi sala Íslandsbanka og breytt fyrirkomulag varðandi eldsneytisnotkun og ökutækjakaup skipta máli.
Meira aðhald ef horfur versna
Þó stendur einnig í fjármálaáætluninni að umfang aðhaldsaðgerðanna muni fara eftir efnahagsþróun innanlands. Verði þróunin jákvæðari en búist var við, t.d. vegna aukins framleiðnivaxtar og meiri útflutnings í atvinnugreinum sem byggja á tækni og hugviti, gæti verið að engin þörf verði á því að hækka skatta eða draga úr opinberum gjöldum.
Á hinn bóginn gæti ríkisstjórnin hert ólina töluvert ef efnahagsspár verða undir væntingum, til dæmis vegna minni alþjóðahagvaxtar, meiri hækkana hrávöruverðs og færri ferðamanna. Samkvæmt fjármálaáætluninni gætu aðhaldsaðgerðirnar tæplega fimmfaldast ef það gerist og numið um 42 milljörðum króna á hverju ári.
Samkvæmt ríkisstjórninni þyrftu þessar aðhaldsaðgerðir að eiga sér stað svo að hægt væri að framfylgja afkomumarkmiði eigin fjármálastefnu, sem var samþyktk fyrr á árinu. Þó bætir hún við að þær séu það harkalegar að ólíklegt sé að hún myndi samrýmast hagstjórnarhlutverki hins opinbera eða grunngildum laga um opinber fjármál um stöðugleika.
Því segist ríkisstjórnin munu slaka á eigin afkomumarkmiðum ef hagþróunin versnar til muna, í ljósi þess hversu mikið opinber þjónusta myndi skerðast vegna aðhaldsaðgerðanna sem væru nauðsynlegar til að framfylgja þeim. Þó segir hún ekki hversu mikil slík tilslökun gæti verið.