Kvikmyndahúsin á Íslandi seldu bíómiða fyrir 1.486 milljónir króna á síðasta ári, sem er lækkun upp á 0,4 prósent á milli ára - eða sem svarar sex milljónum króna. Á sama tíma fækkaði gestum kvikmyndahúsanna um 2,3 prósent, en þeir voru 1.344.569 talsins á síðasta ári, miðað við 1.375.723 árið 2013. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FRÍSK - Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði.
Í tilkynningunni kemur fram að kvikmyndahúsagestum hafi farið fækkandi undanfarin ár, en ef til vill megi rekja fækkun gesta á síðasta ári til HM í knattspyrnu sem fram fór í Brasilíu síðasta sumar. Vegna þessa hafi bandarísku kvikmyndafyrirtækin ákveðið að gefa út færri stórar myndir síðasta sumar en árið áður.
Meðalverð fyrir bíómiða á Íslandi á síðasta ári var 1.105 krónur, sem er innan við tveggja prósenta hækkun frá árinu á undan, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni frá FRÍSK. Hækkun á meðalverði bíómiða og hlutfallsleg minni breyting á tekjum á móti aðsókn skýrist að miklu leyti af fjölda íslenskra kvikmynda sem frumsýndar voru á síðasta ári, en íslenskar kvikmyndir eru með hærra miðaverði.
Íslenskar kvikmyndir gerðu það gott á árinu, en þrjár íslenskar kvikmyndir voru á meðal tuttugu tekjuhæstu mynda ársins. Vonarstræti var tekjuhæsta kvikmyndin á síðasta ári, en myndin halaði inn tæpar 70 milljónir króna og fékk flesta gestina eða tæplega 48.000. Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum hafnaði í áttunda sæti listans með rétt rúmar 37 milljónir króna og rúmlega 32.600 gesti, en myndin er enn í sýningu. Þá hafnaði Afinn í sautjánda sæti listans með rúmar 22 milljónir króna og tæplega 15.000 kvikmyndahúsagesti.
Þær níu íslensku kvikmyndir sem sýndar voru á árinu voru með 13,3 prósent af markaðnum í tekjum talið en samtals höluðu íslenskar kvikmyndir inn tæpar 197 milljónir króna á síðasta ári. Hvað aðsókn varðar voru íslenskar myndir með ellefu prósent af heildaraðsókn en rúmlega 148.000 gestir sóttu kvikmyndahúsin til að sjá íslenska framleiðslu. Þetta er umtalsvert betra en á árinu 2013 þar sem sjö íslenskar myndir voru einungis með 3,6 prósent af markaðinum í tekjum talið og enn minna í aðsókn.
Önnur tekjuhæsta kvikmynd ársins er lokakaflinn í þríleiknum um Hobbitann, The Hobbit: The Battle of the Five Armies, sem náði þeim ótrúlega árangri að hala inn yfir 50 milljónir króna og ná yfir 40.000 gestum á aðeins einni viku.
Hér að neðan má sjá listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndir ársins 2014:
Listi yfir tekjuhæstu kvikmyndirnar á síðasta ári, samkvæmt FRÍSK.