Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarssonar utanríkisráðherra, hefur verið skipaður til að taka við stöðu varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES í Brussel þann 1. janúar næstkomandi. Stjórn sjóðsins tók ákvörðun um ráðninguna eftir tilnefningu íslenskra stjórnvalda. Borgar Þór tekur við stöðunni af Árna Páli Árnasyni, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, sem hefur verið í starfinu síðan 2018. Hann var skipaður í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til næstu fjögurra ára í síðustu viku.
Borgar Þór mun fara með samskipti EFTA-ríkjanna í Evrópska efnahagssvæðinu; Íslands, Noregs og Liechtenstein, við viðtökuríki sjóðsins í Suður- og Austur-Evrópu.
Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði á Evrópska efnahagssvæðinu og stuðla að eflingu tvíhliða samstarfs milli EES/EFTA-ríkjanna og viðtökuríkjanna fimmtán: Búlgaríu, Eistlands, Grikklands, Kýpur, Lettlands, Litáens, Möltu, Portúgal, Póllands, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Króatíu, Tékklands og Ungverjalands.
Í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins segir að Borgar Þór hafi lokið embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2004 með áherslu á þjóðarétt. „Hann hefur víðtæka reynslu af lögfræði- og lögmannsstörfum í alþjóðlegum verkefnum og hefur meðal annars flutt mál fyrir EFTA-dómstólnum. Borgar Þór var sjálfstætt starfandi lögmaður frá 2010 sem eigandi hjá lögmannsstofunni OPUS og síðar CATO en þar áður starfaði hann sem lögfræðingur í Landsbankanum og löglærður fulltrúi á lögmannsstofunni LEX. Hann var varaformaður Lögmannafélags Íslands 2012–2013.“