Ægir Már Þórisson hefur verið ráðinn forstjóri Advania á Íslandi. Hann tekur við starfinu af Gesti G. Gestssyni sem mun helga sig starfi Advania Norden, móðurfélagi Advania á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Ægir hefur starfað hjá Advania frá árinu 2011 og undanfarin tvö ár hefur hann verið framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðsmála. Áður var hann mannauðs- og framkvæmdastjóri hjá Capacent. Hann segir spennandi tíma framundan. "Með þessari breytingu ætlum við að skerpa áherslur okkar á innanlandsmarkaði. Okkar meginmarkmið mun sem fyrr snúast um að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu á sviði upplýsingatækni og hjálpa þeim að nýta upplýsingatæknina á snjallan hátt til að ná enn betri árangri“.
Gestur hefur verið forstjóri fyrirtækisins frá árinu 2009. Þá voru Eskill, Kögun, Landsteinar Strengur, Kögun og Skýrr hafa verið sameinuð í eitt fyrirtæki, sem starfaði í fyrstu undir nafni Skýrr. Í janúar 2012 var nafninu síðan breytt í Advania.
Hann segir að mikið hafi verið lagt í að efla starfsemi Advania á Norðurlöndunum á undanfrönum árum og að hann hafi sinnt því samhliða því að stýra starfseminni á Íslandi. "Núna teljum við að sé rétti tímapunkturinn að ég einbeiti mér að okkar norrænu starfsemi af fullum krafti. Advania á Íslandi er sá grunnur sem við byggjum á og því skiptir miklu fyrir okkur að fá jafn öflugan mann og Ægi Má til þess að halda um taumana hér heima og efla starfsemina enn frekar.“
Advania er að fullu í eigu sænsku félagsins AdInvest. Áform eru uppi um að tvískrá fyrirtækið í kauphöll, annars vegar í Reykjavík og hins vegar í Stokkhólmi.