Áhættufjárfestingasjóðurinn Frumtak 2 ráðgerir að fjárfesta í að minnsta kosti fjórum fyrirtækjum það sem eftir lifir árs fyrir samtals einn milljarð króna. Sjóðurinn, sem stofnaður var fyrr á þessu ári, hefur enn sem komið er ekki tilkynnt um neinar fjárfestingar.
Frá þessu er greint á vefsíðunni Norðurskautið, fréttasíðu um nýsköpun á Íslandi. Fjárfestingargeta Frumtaks 2 er samtals fimm milljarðar króna en sjóðurinn er í rekstri Frumtaks, sem áður hefur meðal annars fjárfest í fyrirtækjunum DataMarket, Meniga og Handpoint.
Í ár hefur verið tilkynnt um þrjá nýja fjárfestingasjóði sem einblína á fjárfestingar í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Þeir eru Frumtak 2, Eyrir Sprotrar og Brunnur. Samanlögð fjárhæð sem sjóðirnir stefna á að setja í fyrirtæki á mismunandi vaxtastigum er 11,5 milljarðar króna. Sjóður Frumtaks er stærstur sjóðanna þriggja og áætlar að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum fyrir fimm milljarða króna, að því er fram kemur í úttekt um sjóðina þrjá á vefsíðu Norðurskautsins. Stærð Eyris Sprota, sem er í rekstri félagsins Eyrir Invest, er 2,5 milljarðar króna og Brunnur, sjóður í rekstri Landsbankans, er fjórir milljarðar að stærð. Sjóðirnir hafa enn sem komið er ekki tilkynnt um fjárfestingar í fyrirtækjum.