Fiskimjölsverksmiðjur munu, að minnsta kosti margar hverjar, brenna olíu í vetur frekar en að nota rafmagn til að starfrækja starfsemi sína. Ástæðan er verðhækkun Landsvirkjunar á ótryggðri orku og fallandi heimsmarkaðsverð á olíu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Mun umhverfisvænna er að notast við rafmagn til að reka verksmiðjurnar en svartolíu.
Þar segir að flestar fiskimjölsverksmiðjur landsins hafi verið rafvæddar að hluta eða öllu leyti með tilheyrandi kostnaði. Blaðið segir að forsendur fjárfestinganna hafi í flestum tilvikum verið „að hægt yrði að kaupa ótryggða orku á hagkvæmu verði og því hefur olíukötlunum verið haldið við þannig að hægt væri að grípa til þeirra ef rafmagn hefur verið skammtað“.
Að undanförnu hafa mörg fyrirtækin endursamið um orkukaup við dreifingarfyrirtæki og þá hafa taxtarnir hækkað verulega. Friðrik Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, segir við Morgunblaðið að „eins og staðan er núna munum við brenna olíu í vetur í stað þess að kaupa rafmagn“. Ástæðan sé sú að raforka verði ekki samkeppnisær við olíu í verði. Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju á Eskifirði, segir að um þessar mundir sé hægt að festa sér olíu á hagkvæmu verði til notkunar út árið.
Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda hefur óskað eftir fundi með Landsvirkjun í þessari viku til að fá skýringar á verðhækkunum.