Reksturinn er þungur hjá sveitarfélögunum í landinu, eins og nýleg uppgjör stærstu sveitarfélaga landsins, Reykjavíkurborgar, Kópavogs og Hafnarfjarðar, staðfesta. Hækkandi launakostnaður er sérstaklega erfiður fyrir grunnrekstur sveitarfélaga, en fyrirséð er að hann muni hækkað töluvert á næstunni.
Tekjustofnar sveitarfélaga eru einfaldir, og ekki ljóst hvernig það á að takast að styrkja reksturinn, nema það komi til einhver óvænt tekjuinnspýting.
Það er umhugsunarefni fyrir rekstur hins opinbera í landinu, hvort ekki sé eðlilegt að sveitarfélög fái hlutdeild í virðisaukaskatti (VSK) en hann rennur allur í ríkiskassann. Sé miðað við fjárlög þessa árs þá var ráðgert að VSK skilaði 174,9 milljörðum króna í kassann.
Ferðaþjónustan hefur stóreflst undanfarin ár, í sveitarfélögum vítt og breitt um landið, og skilar hún vaxandi tekjum til ríkisins, ekki síst í gegnum VSK. Það er spurning hvort hluti af VSK megi ekki renna til sveitarfélaga? Ef fimm prósent af VSK færi til sveitarfélaga, svo dæmi sé tekið, þá væri það 8,7 milljarðar króna, og það munar um minna.
En þá þyrfti ríkið að finna út úr því sín megin, hvernig megi bregðast við tekjumissi sem þessum. Það kann samt að vera þetta sé skynsamleg leið til þess að styrkja rekstur hins opinbera, þegar heildarsamhengið er skoðað.