Í liðinni viku var greint frá því að Isavia hafi úthlutað styrkjum úr samfélagssjóði sínum fyrir fyrri hluta ársins 2015. Fjölmargar umsóknir bárust en einungis var hægt að verða við beiðnum um styrki til 21 aðila. Alls úthlutaði Isavia 4.755.000 krónum til þeirra. Á meðal styrkhafa voru ýmis góðgerðarfélög, íþróttafélög á Suðurnesjum og einstaklingar.
Í tilkynningu um málið er haft eftir Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia að það sé "mjög ánægjulegt fyrir okkur að styrkja þessi góðu málefni og ég er sannfærður um að styrkirnir komi að góðum notum og nýtist þar sem þeirra er þörf. Við hjá Isavia styðjum við bakið á hinum ýmsu samfélagslegu málefnum í gegnum styrktarsjóði okkar. Auk fyrrgreindra styrkja er megin fjárhagsstuðningur fyrirtækisins til björgunarsveita um allt land í gegnum Styrktarsjóð Isavia hjá Landsbjörgu. Þá eru staðsettir söfnunarbaukar fyrir 5 góðgerðarfélög í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem njóta góðs af fjárframlögum farþega í flugstöðinni. Auk þessa hefur Isavia verið með samstarfssamning við HR og HÍ um styrki til meistara- og doktorsverkefna."
Isavia annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir flugumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Fyrirtækið er að öllu leyti í eigu eins aðila, íslenska ríkisins. Það má því velta því fyrir sér af hverju fyrirtæki sem er að fullu í eigu skattgreiðenda er að veita geðþóttastyrki til nærsamfélagsins?