Af hverju sættir ungt fólk sig við þær aðstæður sem þeim er boðið upp á í íslensku samfélagi? Flestar ákvarðanir sem stjórnmálamenn taka virðast snúast um að verja sérhagsmuni þeirra sem eiga og að stuðla að millifærslum úr ríkissjóði sem gera ungu fólki erfiðara fyrir að koma undir sig fótunum.
Margrét Kristmannsdóttir, fyrrum formaður Samtaka verslunar og þjónustu, fjallar um þetta í nýjum pistli sem birtist á síðu Hringbrautar. Þar segir Margrét að við ungu kynslóðinni blasi ekkert annað en að feta í fótspor þeirra sem lentu í verðbólgubálinu á níunda áratug síðustu aldar. „Við ungu kynslóðinni blasir við mjög einföld sviðsmynd sem sýnir að valið stendur á milli þess að taka verðtryggð fasteignalán með +/- 4% vöxtum eða óverðtryggð lán með +/- 8% vöxtum. Og þetta eru afleitir valkostir. Ég hef stundum sagt að þetta sé val um að láta lúberja sig eða rota.
En það allra versta er það er ekkert í kortunum sem sýnir að þetta sé að fara að breytast. Engin ný peningastefna - engin framtíðarsýn - bara haldið áfram á sömu braut ár eftir ár eftir ár. Þar sem breytingum er þó lofað með reglulegu millibili um að þetta standi allt til bóta með betri hagstjórn - sem sé rétt handan við hornið. En árin líða samt áfram eitt af öðru - og ár verða áratugir við óbreytt ástand.
En unga fólkið á ekki að sætta sig við þessa valkosti - heldur gera kröfu um að þeim standi til boða sömu lánakjör og í nágrannalöndunum. Þau eiga að neita að það eitt að eignast heimili kosti áratuga ánauð.
Þau eiga einfaldlega að taka málin í sínar hendur og ýta í burtu kynslóðinni sem hefur reynst ofviða að gera lífskjörin hér eins og þau best geta orðið.“
Kjarninn ætlar að gera pælingu Margrétar að sinni og spyrja, líkt og hún gerir í fyrirsögn á pistli sínum, af hverju gerir unga kynslóðin ekki uppreisn?