Ísland í dag, magasínþáttur Stöðvar 2, var „léttur“ snemma árs 2009. Árin á undan hafði þátturinn verið með þunga fréttatengda áherslu.Tilgangur breytinganna var að fjalla um mannlegri málefni, m.a. með áherslu á hressar umfjallanir um þekkta einstaklinga og lífsreynslusögur Íslendinga sem höfðu gengið í gegnum erfiða tíma, til dæmis vegna veikinda. Þessi breyting skilaði mun meira áhorfi en áður hafði verið á þáttinn.
Í byrjun apríl var aftur tilkynnt um breytingar á Íslandi í dag. Þættirnir yrðu að jafnaði lengri en áður, eða um 40 mínútur að lengd, og þeir gerðir í meiri samvinnu við fréttastofu 365. Auk þess yrðu sérstakir þættir um stjórnmál, efnahagsmál og viðskiptalíf undir hatti Íslands í dag. Þannig átti þátturinn alltaf að fjalla um málefni líðandi stundar og tengjast betur þjóðmálaumræðunni en hann hafði gert undanfarin sex ár.
Svo virðist sem áhorfendur hafi alls ekki tekið vel í þessar breytingar. Í lok febrúar var meðaláhorf á Ísland í dag yfir 16 prósent og vikuna áður en breytingarnar voru innleiddar horfðu 14,1 prósent á þáttinn. Samkvæmt mælingum Gallup horfðu tólf prósent á Ísland í dag fyrstu vikuna eftir breytingar og 8,8 prósent vikuna eftir það. Í síðustu mældu viku, 20.-26. apríl, nær Ísland í dag ekki inn á lista yfir þá tíu dagskrárliði sem mest áhorf er á hjá Stöð 2. Það þýðir að þátturinn var með minna en 7,9 prósent áhorf í þeirri viku.
Gæti verið að áhorfendur Stöðvar 2 hafi einfaldlega ekki áhuga á dýpri þjóðmálaumræðu?