Frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak hefur verið lagt fram á ný. Frumvarpið, sem myndi binda enda á einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis nái það fram að ganga, dagaði uppi á síðasta þingi.
„Frumvarpið felur í sér aukið frelsi til smásölu á Íslandi en það er ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu heldur að setja reglur um hana og hafa eftirlit með henni ef nauðsyn þykir. Hlutverk einkaaðila er að selja vörur og þjónustu í samræmi við þær reglur sem stjórnvöld hafa sett. Þetta sjónarmið á við um áfengi og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Það er lagt fram með lítilsháttar breytingum, en meðal annars er gert ráð fyrir að sveitarfélög hafi heimild til 1. september 2017 til að veita smásöluleyfi þeim verslunum sem hýsa áfengisútsölur ÁTVR í lok þessa árs.
„Með þessu er leitast eftir að fyrirkomulaginu verði ekki umbylt og einnig lagt til að lög þessi verði tekin til endurskoðunar að reynslutíma loknum. Þá er nú lagt til að allir þurfi að sýna skilríki þegar þeir kaupa áfengi og sanna þar með aldur sinn. Einnig er áréttað að markmið frumvarpsins er að auka verslunarfrelsi í flestum tegundum verslunar en ekki einvörðungu í matvöruverslunum. Nái frumvarpið fram að ganga verður heimild til netverslunar skýrari en áður en áhöld eru um það nú hvort hún er lögleg þar sem stjórnvöld reka tvær slíkar og erlendir aðilar geta selt áfengi í smásölu í gegnum netið og það er keyrt heim að dyrum.“
Flutningsmenn frumvarpsins eru sextán talsins og hefur þeim fjölgað um þrjá frá því það var síðast lagt fram. Þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Bjartrar framtíðar og Pírata eru meðal flutningsmanna. Nýir flutningsmenn eru Guðmundur Steingrímsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Jón Gunnarsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Pétur Blöndal heitinn, þingmaður Sjálfstæðisflokks til margra ára, var meðal stuðningsmanna frumvarpsins á síðasta þingi.
Aðrir flutningsmenn eru auk Vilhjálms: Unnur Brá Konráðsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Brynjar Níelsson, Birgir Ármannsson, Haraldur Benediktsson, Willum Þór Þórsson, Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson og Björt Ólafsdóttir.