Halli ríkissjóðs í ár stefnir nú í að verða um 288 milljarða króna, en í vor var því spáð að hann yrði 320 milljarðar króna. Áætlanir gera ráð fyrir að afkoman á næsta ári verði neikvæð um 169 milljarða króna en fyrri spá gerði ráð fyrir að hallinn yrði 223 milljarðar króna.
Stærstu ástæður þess að þetta á sér stað er að dregið verður verulega úr stuðningi vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19, sem veldur afkomubata hjá ríkissjóði upp á 68 milljarða króna, og bættar efnahagshorfur upp á 52 milljarða króna. Það þýðir afkomubata um 120 milljarða króna milli ára. Gert er ráð fyrir því að heildartekjur ríkissjóðs verða 955 milljarðar króna á næsta ári.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun.
Mest aukning í heilbrigðismál
Á útgjaldahliðinni er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist um 16,3 milljarða króna en það er stærsta einstaka hækkun útgjalda samkvæmt frumvarpinu.
Þá fara 540 milljónir króna í að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum úr 100 þúsund í 200 þúsund krónur skerðingarmörk barnabóta hækka þótt heildarframlagið til málaflokksins lækki.
Búist er við að endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar verði sama upphæð og í ár, eða um 10,4 milljarðar króna. Það er rúmlega tvöföld sú upphæð sem greidd var út árið 2020 vegna þessa. Þá eiga 5,2 milljarðar króna að fara í byggingu hjúkrunarheimila og 1,5 milljarðar króna í fjárfestingu í Stafrænu Íslandi.
Stefnt að bankasölu
Tekjur á næsta ári eru áætlaðar 66 milljörðum króna hærri en gert hafði verið ráð fyrir í fjármálaáætlun. Þetta skýrist einkum af verulegri aukningu tekna af tekjuskatti einstaklinga og tryggingagjaldi, auk þess sem tekjuskattur lögaðila skilar 16 milljörðum króna umfram það sem gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Veltuskattar skila einnig talsvert meiru og er nú reiknað með að tekjur af virðisaukaskatti verði til að mynda 10 milljörðum króna meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
Í fjárlagafrumvarpinu kemur einnig fram að verði markaðsaðstæður ákjósanlegar sé fyrirhugað að draga enn frekar úr eignarhaldi í fjármálakerfinu með sölu á hlutum í Íslandsbanka, en ríkið á sem stendur 65 prósent hlut í bankanum.