Verðmæti afla upp úr sjó nam tíu milljörðum króna í apríl, það er 8,8 prósent minna en í apríl 2014. Verðmæti þorsks var mest eða um 3,8 milljarðar króna sem er 7,2 prósent samdráttur miðað við apríl í fyrra. Verðmæti kolmunna var 35,7 prósent minna en í sama mánuði í fyrra. Frá þessu er greint á vef Hagstofu Íslands.
Á tólf mánaða tímabili frá maí 2014 til apríl 2015 jókst aflaverðmæti um sjö prósent miðað við sama tímabil árið áður. Verðmæti uppsjávarafla jókst um 26,3 prósent milli tímabilanna, og munar þar mest um loðnu og kolmunna. Einnig jókst verðmæti þorsks um 14,1 prósent.
Um 80 prósent af heildarverðmætunum í sjávarútvegi má rekja til starfsemi á landsbyggðinni, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands um verðmæti afla eftir staðsetningu verkunarstaðar.