Undanfarna mánuði höfum við séð þrjú mismunandi dæmi um það hversu merkilega hluti er hægt að gera með samtakamætti og internettengingu. Fyrst kom Twitter-byltingin #freethenipple og svo #6dagsleikinn. Báðar netherferðirnar voru sjálfsprottnar og náðu gríðarlegu flugi á samfélagsmiðlum og mun víðar í raun. Báðar beindu sjónum að kynjamisrétti.
Nú síðast í vikunni sáum við hundruð ef ekki þúsund konur stíga fram á lokuðu en samt víðfeðmu vefsvæði á netinu, hópnum Beauty Tips á Facebook. Í kjölfarið færðist umræðan víðar. Konurnar hafa stigið fram og sagt frá kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, oftast undir merkjunum #þöggun og #konurtala. Það er vel þess virði að skoða þessi myllumerki bæði á Facebook og Twitter og fyllast bæði aðdáun á þeim sem stíga fram og reiði gagnvart gerendum og kerfi sem er flestum ljóst að er verulega gallað og brotið.
617 einstaklingar leituðu til Stígamóta á síðasta ári. Frá stofnun samtakanna hafa yfir sjö þúsund manns leitað sér aðstoðar þar. Flestir leituðu þangað vegna nauðgunar og næstflestir vegna sifjaspella. Þar á eftir kom kynferðisleg áreitni. Það er líka vel þess virði að skoða ársskýrslur Stígamóta sem fara ítarlega yfir þessi mál. Stærstur hluti mála sem koma inn á borð Stígamóta ratar aldrei til lögreglu, rúmlega þrettán prósent mála sem komu þangað inn í fyrra komust til opinberra aðila. Þá má gera ráð fyrir því að mun fleiri mál rati ekki einu sinni á borð til Stígamóta eða annarra sambærilegra samtaka.
Veruleikinn í kynferðisbrotamálum er skelfilegur. En byltingin sem ungar konur hafa hrint af stað undanfarið er raunveruleg og hún vekur líka upp raunverulega von um að hægt sé að breyta þessum veruleika.