Afstaða Framsóknar og flugvallarvina er jafnskýr nú sem áður, þeir styðja áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni í óbreyttri mynd. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá borgarstjórnarflokki Framsóknar og flugvallarvina sem send var út í kjölfar þess að Rögnunefndin svokallaða skilaði niðurstöðu sinni í dag. Mat nefndarinnar
að Hvassahraun sé álitlegasti kosturinn fyrir flugvöll í Reykjavík.
Framboð Framsóknar og flugvallarvina snérist að stóru leyti um þá pólitísku afstöðu að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram í Vatnsmýrinni. Niðurstaða Rögnunefndarinnar breytir henni ekki, samkvæmt tilkynningunni. Þar segir: "Það er miður að hlutverk Rögnunefndarinnar hafi ekki verið að leggja mat á hagkvæmni þess að halda Reykjavíkurflugvelli í núverandi mynd, heldur aðeins að athuga hvort að önnur flugvallarstæði eða flugvöllur í Vatnsmýri í breyttri mynd kæmu til greina fyrir rekstur innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu.
Athugun stýrihópsins náði ekki til óbreytts flugvallar í Vatnsmýri enda var það utan skilgreinds verksviðs nefndarinnar."
Framsókn og flugvallarvinir fengu tvo borgarfulltrúa kjörna í borgarstjórnarkosningunum í fyrra, þær Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur. Guðfinna tjáði sig um málið í stöðuuppfærslu á Facebook fyrr í dag.
Nefndin kannaði fjögur ný flugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu og Ragna Árnadóttir, formaður hennar, sagði í samtali við Kjarnann fyrr í dag að vinnan hafi verið bundin við höfuðborgina. Þess vegna hafi flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur ekki verið skoðað. „Það var ekki hluti af okkar vinnu,“ segir Ragna en sá kostur hefur oft verið nefndur í umræðunni um umdeildan flugvöllinn í Vatnsmýri og framtíð hans.
Flugvallarstæðin sem voru skoðuð eru við Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun og Löngusker auk þess sem breytt útfærsla á legu flugbrauta í Vatnsmýri var metin. Áætlaður stofnkostnaður yrði í öllum tilvikum á bilinu 22 til 25 milljarðar króna, nema á Lönguskerjum þar sem hann er metinn um 37 milljarðar króna.