Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir á vef sínum, að miklar launahækkanir sem samið hefur verið um á Íslandi að undanförnu séu „líklegar til þess að trufla“ efnahagsbatann og öðru leyti traustar stoðir efnahagslífsins.
Hinn 24. júní fóru fram umræður um sjöttu eftirfylgniskýrslu um Ísland í framkvæmdastjórn Alþjóðgjaldeyrissjóðsins, að því er fram kemur á vef Seðlabanka Íslands.
Sjóðurinn birti í dag fréttatilkynningu á heimasíðu sinni þar sem greint er frá umræðunni. Sendinefnd AGS var hér á landi til viðræðna við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila í maí.
Í tilkynningunni kemur fram að umsamdar launahækkanir séu líklegar til þess að þrýsta verðbólgu langt upp fyrir 2,5 prósent verðbólgumarkmiðið, en hún mælist um þessar mundir 1,5 prósent.
Að öðru leyti segir að efnahagurinn standi að mörgu leyti traustum fótu, og jákvætt sé að stigin hafi verið stór skref í átt að losun fjármagnshafta, með ítarlegri áætlun sem þegar hefur verið kynnt, þar sem lokamarkmiðið er að geta tengst alþjóðamörkuðum á grundvelli frjálsra fjármagnsflutninga.
Því er spáð að hagvöxtur geti orðið 4,1 prósent á þessu ári, sem verður ekk síst drifinn áfram af ferðaþjónustu sem sé í miklum vexti (booming tourism).