Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi vill að stjórnvöld hugi að því að leysa upp Íbúðalánasjóð með skipulegum hætti til að lágmarka kostnað ríkisins og þá kerfisáhættu sem hlýst af sjóðnum. Í áliti nefndarinnar sem birt var í dag segir að „jafnframt ætti að leita samstöðu um helstu félagsleg markmið íbúðalána áður en arftaka stofnunarinnar verður komið á fót“.
Vandi Íbúðalánasjóðs er mikill og skattgreiðendur hafa þurft að greiða um 50 milljarða króna með sjóðnum á undanförnum árum. Áhugi hefur verið hjá viðskiptabönkum, sérstaklega Arion banka, á því að kaupa lánasafn Íbúðalánasjóðs. Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra, sagði hins vegar í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku að ekki kæmi til greina að selja lánasafnið á meðan að rikisábyrgð væri á skuldum sjóðsins.
AGS greinir íslenskt efnahagslíf
Sendinefnd AGS á Íslandi kynnti álit sitt á stöðu efnahagsmála hérlendis á Kjarvalsstöðum í morgun. Nefndin hefur verið á Íslandi undanfarna daga við að vinna að álitsgerðinni.
Helstu niðurstöður hennar eru að viðfangsefni Íslands á sviði hagstjórnar þarf að vera að styrkja fjárhagsleg tengsl landsins við umheiminn. Þrátt fyrir jákvæðar horfur í efnahagsmálum, sérstaklega vegna mikillar einkaneysla vegna skuldaleiðréttingar og lægra innflutningsverðs, eru sýnilegir veikleikar enn fyrir hendi í íslenskum efnahagsmálum. Þeir eru helst óvissa vegna losun hafta, mikill þrýstingur á launahækkanir í komandi kjaraviðræðum, lagaleg viðfangsefni vegna skatta á fjármálafyrirtæki og framkvæmd verðtryggingar og, líkt og sagði hér að ofan, veik staða Íbúðalánasjóðs.