Um fimmtungi færri horfðu á kvöldfréttir RÚV að meðaltali í lok ágúst og þorra septembermánaðar 2014 en gerðu það í september 2008. Þetta er hægt að sjá út úr fjölmiðlamælingum Capacent sem aðgengilegar eru á vefnum. Um er að ræða hlutfall þeirra Íslendinga sem horfðu á meðalmínútu af fréttatíma RÚV.
Í september 2008 horfðu að meðaltali 27,8 prósent landsmanna í aldurshópnum 12-80 ára á meðalmínútu af fréttir RÚV í vikum 36-39. Í ár horfðu að meðaltali 22,2 prósent sama hóps á kvöldréttir RÚV í vikum 35-38, en tímabilið nær frá lokum ágúst og fram til 21. september. Á því tímabili féll einn fréttatími niður vegna landsleiks Íslands og Tyrklands í knattspyrnu og er tekið tillit til þess í útreikningum Kjarnans. Því horfa um 20 prósent færri á meðalmínútu af fréttum RÚV nú en gerðu það á svipuðum tíma árið 2008. Ef horft er til uppsafnaðs áhorf er hlutfallsleg fækkun enn meiri, eða 27,4 prósent.
Forskotið minnkar verulega
Stöð 2 hefur tekist betur að halda á áhorfendum sem horfa á á meðalmínútu af fréttatíma stöðvarinnar. Þeim hefur fækkað um fjögur prósent frá 2008. Í september það ár horfðu 21,9 prósent landsmanna í aldurshópnum 12-80 ára á fréttatíma Stöðvar 2 en í viku 35-38 í ár, sem nær frá lokum ágúst og fram til 21. september, horfðu 21 prósent sama hóps á hann.
Þrátt fyrir að hafa tapað áhorfi hefur Fréttastofa Stöðvar 2 því saxað mjög á forskot Fréttastofu RÚV á síðustu sex árum. Árið 2008 horfðu 21 prósent fleiri á meðalmínútu af fréttum RÚV en Stöðvar 2 að meðaltali á viðmiðunartímabilinu. Árið 2014 er munurinn einungis 5,4 prósent. Í viku 38 í ár,frá 15-21. september, horfðu fleiri á fréttir Stöðvar 2 í aldurshópnum 12-80 ára en á fréttatíma RÚV. Alls horfðu 19,4 prósent hópsins á meðalmínútu af fréttatíma Stöðvar 2 en 19 prósent á fréttir í ríkissjónvarpinu.
Uppsafnað áhorf á fréttir Stöðvar 2 hefur aukist
Ef miðað er við uppsafnað áhorf á fréttatímann – hlutfall þeirra sem horfðu í að minnsta kosti fimm mínútur samfleytt á hann – er fækkun þeirra sem horfðu á fréttir RÚV í sama aldurshóp enn meiri, eða 27,4 prósent.
Uppsafnað áhorf á fréttir Stöðvar 2 er hins vegar meira nú en það var á viðmiðunartímabilinu 2008. Árið 2014 er það 25,9 prósent en var 25,6 prósent að meðaltali í september 2008. Uppsafnað áhorf hefur því aukist um 1,2 prósent.