Titringur er innan fjármálageirans vegna þess að þrír af sjö meðlimum framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta hafa verið yfirmenn í einum og sama bankanum, MP banka. Í Fréttablaðinu í dag segir að það hafi vakið upp spurningar hvort heilbrigt sé að sækja í sama brunninn eftir ráðgjöfum.
Í Fréttablaðinu er haft eftir Sigurði G. Valgeirssyni, upplýsingafulltrúa Fjármálaeftirlitsins að því sé kunnugt um málið en að það vilji að öðru leyti ekki tjá sig um það.
Þessar áhyggjur eru vel þekktar og mikið ræddar innan fjármálageirans. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru ástæður þess að skipan mannanna þriggja: Sigurðar Hannessonar, Benedikts Gíslasonar og Ásgeirs Helga Reykfjörð Gylfasonar, hafa vakið upp kurr er sú að áhyggjur eru á meðal stjórnenda og starfsmanna annarra fyrirtækja innan fjármálageirans að einn banki fái betri upplýsingar um stöðu mála en allir hinir. Ef einn banki veit meira um hvað sé framundan varðandi losun hafta, og þær leiðir sem stjórnvöld ætla að fara í þeirri vegferð, þá sé hann með stórt samkeppnislegt forskot á hina. Í Fréttablaðinu er einnig sagt að margir starfsmenn úr saman bankanum geti veitt þrengri sýn en æskilegt væri á losun hafta.
Þar er einnig rætt við Helga Hjörvar, þingflokksformann Samfylkingarinnar, sem segir: "Þetta eru óheppileg tengsl, að svo margir nefndarmenn komi frá einu fjármálafyrirtæki. Ég hef orðið þess var að þetta hefur þegar vakið spurningar á markaði og mikilvægt að menn eyði öllum efasemdum sem tengjast hinum mikilvægu verkefnum nefndarinnar."
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir við Fréttablaðið að mikilvægt sé að þeir sem komi að þessari vinnu hafi þá þekkingu sem til þarf og séu ekki að vinna fyrir slitastjórnir á öðrum vettvangi. "Það er vissulega mikilvægt að það sé ekki vantraust í þessum efnum."