Samkvæmt lista ferðaþjónustuvefsíðunnar GoEuro, situr Reykjavík í 38. sæti yfir verð fyrir Airbnb gistingu í útvöldum borgum víðs vegar um heiminn. Í Reykjavík kostar nóttin í Airbnb gistingu að jafnaði 103 evrur, eða tæplega 15.900 krónur, en við gerð listans safnaði GoEuro saman verðupplýsingum frá vefsíðu Airbnb fyrir yfir fjörutíu þúsund gististaði í 150 löndum. Við útreikninganna var stuðst við verð fyrir 2 - 4 einstaklinga, bæði innan og utan háannatíma, annars vegar helgina 26. til 29 desember og virku dagana 6. til 9. október.
Samkvæmt listanum er dýrasta Airbnb gistingin í Boston, en þar kostar nóttin 220 evrur að meðaltali, eða hátt í 34.000 krónur. Í Tirana, höfuðborg Albaníu, er hins vegar ódýrast að kaupa sér Airbnb gistingu, en þar kostar nóttin 24 evrur að jafnaði, eða tæpar 3.700 krónur. Önnur dýrasta borgin hvað varðar Airbnb gistingu er Cancún í Mexíkó (198 evrur), og í þriðja sætinu situr New York borg (185 evrur).
Á meðal borga, þar sem er ódýrara að kaupa Airbnb gistingu en í Reykjavík má nefna París (70 evrur), Berlín (80 evrur), Ósló (83 evrur), Madríd (84 evrur), Mílan (93 evrur), Kaupmannahöfn (95 evrur), Hong Kong (99 evrur) og Barcelona (99 evrur).
GoEuro reiknaði sömuleiðis út meðaltal fyrir hverslags gistingu í áðurnefndum 150 borgum víðs vegar um heiminn. Þá var reiknað út sameiginlegt meðaltalsverð fyrir gistingu á hótelum, gistiheimilum, farfuglaheimilum og Airbnb. Þar situr Reykjavík í 51. sæti á listanum, með meðalverð upp á 85 bandaríkjadali, eða sem samsvarar ríflega 10.600 krónum. Á þeim lista trónir New York borg á toppnum með meðaltalsverð fyrir hverslags gistingu upp á 246 bandaríkjadali, eða tæplega 31.000 íslenskar krónur.