Í sumar fór fjöldi íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem skráðar eru á leigusíðuna AirBnB undir þeim formerkjum að hægt sé að leigja allt heimilið, á ný yfir 2.000, eftir að fjöldinn hafði dregist verulega saman árin 2020 og 2021, í kórónuveirufaraldrinum.
Enn er þó nokkuð í að fjöldi þeirra íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem skráðar eru á AirBnB nái sömu hæðum og yfir sumarmánuðina árin 2017, 2018 og 2019, en þá voru jafnan yfir 3.000 íbúðir skráðar til útleigu í heild sinni á leigusíðunni.
Þetta kemur fram í skýrslu um fasteignamarkaðinn í Reykjavík, sem fyrirtækið Arcur ráðgjöf vann að beiðni borgaryfirvalda.
Í greiningu fyrirtækisins segir að árið 2021 hafi farið hægt af stað, hvað varðar aukningu skráðra íbúða á AirBnB, en að framboðið hafi aukist smám saman þegar leið á árið.
Í janúar hafði framboð eigna á AirBnB einungis aukist um 2,6 prósent frá janúarmánuði 2021, en í júlí var aukningin frá því í júlímánuði í fyrra orðin rúm 96 prósent. Í september síðastliðnum voru svo 89,5 prósent fleiri íbúðir til útleigu en á sama tíma fyrra, eða rúmlega 2.000 eignir.
Í greiningu Arcur segir að það sé ljóst að nokkur fjöldi íbúða sé nú nýttur í þjónustu við ferðamenn, jafnvel þó að fjölgun gistirýma á hótelum hafi verið talsverð á sama tíma. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni voru hótelrými á höfuðborgarsvæðinu um 5.500 talsins í sumar.
Flestar íbúðirnar í eða nærri miðborginni
Í greiningum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum um staðsetningu þeirra íbúða sem eru auglýstar til leigu á AirBnB hefur komið fram að flestar eru þær í Reykjavík og hæst hlutfall þeirra í sjálfri miðborginni, póstnúmeri 101.
Í rannsókn á áhrifum AirBnB-útleigu á húsnæðismarkaðinn sem unnin var árið árið 2019 kom fram að 80 prósent skráðra AirBnB-eigna á höfuðborgarsvæðinu væru í Reykjavík og 37 prósent í miðborginni.
Sautján prósent eignanna voru í 105 Reykjavík, auk þess sem sjö prósent í voru póstnúmeri 107 Reykjavík.