Meðaláhorf á sjónvarpsútsendingu frá leik Íslands og Kasakstan síðastliðinn sunnudag var yfir fimmtíu prósent miðað við áhorf allan tímann. Uppsafnað áhorf var 66 prósent, en það mælir áhorf lengur en í fimm mínútur. Aldrei áður hafa svo margir horft á landsleik í fótbolta á Íslandi.
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um þróun sjónvarpsáhorfs á landsleiki karlalandsliðsins í knattspyrnu undanfarin tvö ár. Haft er eftir Valgeiri Vilhjálmssyni, markaðsstjóra á RÚV, að almennt séu tölurnar yfir áhorf miklu hærri hérlendis en annars staðar. „Fótboltaleikir eru þetta langir, jafnvel yfir 100 mínútum þegar upphitun og uppbótartími er talinn með. Að fá meðaláhorf á hverja mínútu sem er yfir fimmtíu prósentum er ótrúlega mikið og mjög sjaldgæft. Ég sendi þessi gögn til UEFA, Sporting intelligence og Sportfive í Evrópu og þeir eiga ekki til orð yfir þetta áhorf,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið. Hanns segir að einn þeirra sem sá gögnin hafi einfaldlega sent til baka: Vá!
Eins og kunnugt var til mikils að vinna í leik Íslands síðastliðinn sunnudag. Með jafnteflinu tryggði Ísland sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem haldin verður næsta sumar í Frakklandi.
Sem dæmi um áhorfstölur þá mældist sjónvarpsáhorf 25,8 prósent á leik Íslands og Tyrklands, þegar Ísland sigraði með þremur mörkum gegn engu á Laugardalsvelli í september 2014. Svipað áhorf mældist í næsta leik á eftir, þegar Ísland lagði Lettland, aftur með þremur mörkum gegn engu. Í næstu tveimur leikjum á eftir, gegn sterkum liðum Hollands og Tékklands, mældist áhorf 35,9 prósent og 41,2 prósent. Í síðustu viku þegar Ísland lék gegn Hollandi í Amsterdam var áhorfið 47,9 prósent. Gegn Kasakstan á sunnudag var áhorfið 51,9 prósent.