Væntingavísitala Gallup í júní var 107,1 stig, hún hækkaði um tæp 24 stig milli mánaða og hefur ekki mælst hærri síðan í janúar 2008. Þegar vísitalan fer yfir 100 segir það að fleiri neytendur séu bjartsýnir en svartsýnir á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum. Frá upphafi ársins 2008 hefur vísitalan aðeins mælst yfir 100 stigum í fjóra mánuði. Allar undirvísitölur hækka milli mælinga hjá Gallup, mat á efnahagslífinu hækkar um 34 stig og mat á atvinnuástandinu um rúm 29 stig. Þá hækka væntingar til aðstæðna eftir hálft ár um rúm 28 stig og mat á núverandi ástandi um 17 stig.
Þegar væntingavísitalan er greind eftir kyni kemur í ljós að hækkunin á sér aðeins stað í viðhorfi karla, en lítil breyting er á viðhorfum kvenna.
Greining Íslandsbanka vekur líka athygli á þessu, að væntingar karlmanna og þeirra sem hafa hæstar tekjur aukast mest. Væntingavísitalan fyrir karlmenn mælist 131,4 stig, og hækkar um 43,6 stig milli mánaða, en hjá konum mælist vísitalan 75,9 stig og lækkar um 2,8 stig milli mánaða.
Munurinn á væntingum karla og kvenna til efnahags- og atvinnuástandsins hefur aldrei verið meiri frá upphafi mælinga árið 2001. „Er það áleitin spurning af hverju þessi mikli munur er og hvers vegna hann eykst svo mikið nú sem raun ber vitni,“ segir í greiningu Íslandsbanka. Munurinn lýsi eflaust aðstöðumun kynjanna, svo sem launamun. Það kunni einnig að skipta máli núna, og skýri að hluta til af hverju svona mikil breyting verður á milli kynjanna, að hjúkrunarfræðingar séu enn í kjaradeilum við ríkið. Hjúkrunarfræðingar séu að stærstum hluta konur. Þá telur greining Íslandsbanka að það gæti verið að munurinn eigi sér tölfræðilegar skýringar, þar sem úrtakshópurinn geti valdið flökti milli mánaða.
Væntingavísitalan hækkar fyrir alla tekjuhópa, en mest fyrir þá sem eru með hæstu tekjurnar. Hjá þeim tekjuhæstu er vísitalan nú 132,9 stig en hjá þeim tekjulægstu er hún 79,6.