Frestur til að skila inn hugmyndum í frumkvöðlakeppnina Gulleggið rennur út þriðjudaginn 20. janúar næstkomandi. Keppnin er haldin á vegum Klak Innovit, en þar keppast frumkvöðlar framtíðarinnar við að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja.
Auk þessa er þátttakendunum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga frá mótun hugmyndar til áætlanargerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta. Keppnin er nú haldin í áttunda sinn, en í fyrra var sett met í fjölda hugmynda, en þá bárust alls 377 hugmyndir í keppnina frá um 700 keppendum.
Markaðsteymi Gulleggsins brá nýverið á það ráð að koma fyrir tveimur stórum eggjum á eyjunni í tjörninni í Reykjavík, til að minna áhugasama á að skilafrestur fyrir hugmyndir í keppnina verði senn á enda runninn.
Keppnin er öllum opin, en að loknu námskeiðahaldi komast tíu álitlegustu viðskiptahugmyndirnar áfram á lokadaginn 7. mars næstkomandi þar sem Gulleggið verður veitt sigurvegaranum ásamt einni og hálfri milljón króna í peningaverðlaun.
„Við viljum hvetja alla sem hafa góða hugmynd til að senda hana inn í keppnina. Þú færð svo tækifæri til að móta hana og máta og hver veit, kannski verður þín hugmynd að veruleika,“ segir Emilía Sigurðardóttir úr markaðsteymi Gulleggsins.