Allir fimm nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildu hækka vexti um að minnsta kosti 0,5 prósentur á síðasta fundi nefndarinnar, fyrr í júnímánuði. Þeir voru hins vegar ekki sammála um hversu mikið og hratt ætti að hækka stýrivexti. Niðurstaða nefndarinnar var að hækka stýrivexti um 0,5 prósentustig, að tillögu seðlabankastjóra. Fjórir greiddu atkvæði með tillögunni en einn kaus á móti og vildi hækka vexti um 1 prósentu. Einn þeirra sem kaus með tillögu seðlabankastjóra hefði þó kosið að hækka vexti um 0,75 prósentur.
Tvær vikur eru síðan ákvörðunin var tilkynnt og var fundargerð nefndarinnar birt í dag, venju samkvæmt. Í peningastefnunefnd sitja Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur, Gylfi Zoega prófessor og Katrín Ólafsdóttir lektor.
„Nefndarmenn voru sammála um að horfur um þróun launakostnaðar, hækkun verðbólguvæntinga og vísbendingar um öflugan vöxt eftirspurnar yllu því að óhjákvæmilegt væri að bregðast strax við versnandi verðbólguhorfum þrátt fyrir að verðbólga væri enn undir markmiði. Allir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að rétt væri að hækka vexti um að 6 minnsta kosti 0,5 prósentur og að rök væru fyrir áframhaldandi hækkun vaxta. Þeir voru hins vegar ekki sammála um hversu hröð aðlögun taumhaldsins ætti að vera,“ segir í fundargerðinni.
Helstu rök sem fram komu fyrir hækkun vaxta um 0,5 prósentur voru þau að verðbólga væri enn lítil og ekki væri ljóst í hve ríkum mæli launahækkunum yrði velt út í verðlag eða mætt með hagræðingu fyrirtækja. Á móti var bent á þá hættu að peningastefnan væri að bregðast of seint og of hægt við.
Nefndarmenn voru sammála um að „einsýnt virtist að hækka þyrfti vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum ætti að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið og senda um það skýr skilaboð með yfirlýsingunni nú“.