Allir þingmenn nema einn, Sigríður Á. Andersen þingkona Sjálfstæðisflokksins, samþykktu stofnun Jafnréttissjóðs Íslands á Alþingi í dag. Þingið kom saman til hátíðarfundar í dag vegna þess að í dag eru liðin 100 ár frá því að konur fengu fyrst kosningarétt, og stofnun sjóðsins var eina málið á dagskránni.
Tillagan var samþykkt með 61 atkvæði, Sigríður var á móti og Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi. Formenn allra stjórnmálaflokkanna stóðu að þingsályktunartillögunni. Aðeins konur tóku til máls í umræðunum í dag. Þórunn Egilsdóttir hélt ræðu fyrir hönd Framsóknarflokksins, Katrín Júlíusdóttir fyrir Samfylkinguna, Katrín Jakobsdóttir fyrir VG, Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Björt Ólafsdóttir fyrir Bjarta framtíð og Birgitta Jónsdóttir fyrir Pírata.
Sigríður greindi frá afstöðu sinni í fyrri umræðu um málið á þriðjudag. Hún sagði þingsályktunartillöguna vera vonbrigði og ekkert annað en „enn eitt ríkisútgjaldamálið. Í tillögunni er lagt til að verulega háum fjármunum sé deilt út með afar ómarkvissum hætti í ýmis verkefni sem þarna eru talin upp á sama tíma og fé vantar í mörg nauðsynleg verkefni sem ég veit að er jafnvel þverpólitísk samstaða um að ráðast þurfi í.“
Hún sagði það sína skoðun að virðingu kvenna væri enginn sérstakur sómi sýndur með tillögu sem sendi 500 milljóna króna reikning til skattgreiðenda, en helmingur þeirra væru konur.
„Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Að sjálfsögðu eigum við að halda upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. En ég spyr þá á móti, virðulegur forseti: Þarf alltaf að eyða peningum? Þarf alltaf að gera það? Ég minni á að í aðdraganda þessa afmælis allt þetta ár hefur þessara tímamóta verið minnst með margvíslegum og veglegum hætti — allt árið. Útgjöld vegna þessa eru alveg fyrir utan þau útgjöld sem hér eru lögð til.“