Allir sakborningar í SPRON-málinu svokallaða voru sýknaðir í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Í málinu voru fjórir fyrrum stjórnarmenn og fyrrum forstjóri SPRON ákærðir fyrir umboðssvik vegna tveggja milljarða króna láns sem SPRON veitti Exista þann 30. september 2008, deginum eftir að Glitnir var þjóðnýttur. Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Hin sýknuðu eru Guðmundur Örn Hauksson, fyrrum sparisjóðsstjóri og síðar forstjóri SPRON, og stjórnarmennirnir Rannveig Rist, sem er forstjóri Rio Tinto Alcan, Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, Ari Bergmann Einarsson og Jóhannes Ásgeirs Baldurs.
Þeim var gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga þegar þau samþykktu lánið.
Ákæruvaldið fór fram á að allir hinna ákærðu yrðu dæmdir í fangelsi þar sem brot þeirra væru stórfelld. Það taldi einnig að styrkur og vilji Guðmundar Haukssonar til brots væri sterkari en hjá stjórnarmönnunum. Hámarksrefsing fyrir umboðssvik er sex ára fangelsi.
Lán á ögurstundu
Í skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóði landsins, sem komu út í apríl 2014, var greint frá láni sem SPRON veitti Existu þann 30. september 2008, daginn eftir að ríkið tilkynnti um þjóðnýtingu Glitnis og í miðju bankahruni, upp á tvo milljarða króna. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir: „Samdægurs […]lagði dótturfélag Exista hf., Vátryggingafélag Íslands hf., 2 milljarða króna peningamarkaðsinnlán inn í [SPRON] með sama upphafs- og lokadag og lánið til Existu“.
Í lok október var peningamarkaðsinnláni Vátryggingafélagsins breytt í almennt innlán.
Lánið sem SPRON veitti Existu var aldrei greitt til baka. Á fundi endurskoðunarnefndar SPRON í janúar 2009 kom fram að þetta hefði verið „óheppileg lánveiting“. 1,6 milljarðar króna voru færðir á afskriftarreikning í lok árs 2008 en sú upphæð var enn útistandandi í júlí 2009 og hefur þannig líkast til öll tapast.