„Yfirlýsingar fjármálaráðherra og seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans, sem og orð forsætisráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins, gefa til kynna að það styttist í að lagt verði fram frumvarp þar sem leiðin fram á við í átt að afnámi gjaldeyrishafta verði kunngjörð,“ segir í upphafsorðum í umfjöllun Greiningardeildar Arion banka, þar sem fjallað er um fjármagnshöftin og hvenær dregið getur til tíðinda þegar kemur að losun þeirra. Enn fremur segir að allt að 529 milljarðar króna gætu innheimst í gegnum svonefndan stöðugleikaskatt, miðað við að hann verði 30 prósent. Líklegra sé þó að upphæðin verði lægri, og horft verði sérstaklega til stöðugleikaskatts á innlendar eignir slitabúa hinna föllnu banka.
Í umfjölluninni kemur fram að í megindráttum hafi áætlun Seðlabanka Íslands, frá árinu 2011, verið fylgt.
Þá segir að „sterk rök“ hnígi að því að innheimta einungis skatt af innlendum eignum þar sem erlendar eignir búanna ógni í reynd ekki greiðslujöfnuði þjóðarbúsins. „En vissulega gæti töluverður þrýstingur myndast á krónuna ef erlendir aðilar kysu að innleysa íslensku eignir búanna og skipta krónunum yfir í annan gjaldmiðil samtímis. Þó má telja það ólíklega atburðarás þar sem af þeim 500ma.kr. sem erlendir aðilar eiga í krónum í þrotabúunum er talsverður hluti bundinn í fastafjármunum sem mun taka tíma að breyta í lausafé, þ.m.t. eignarhlutur þrotabúanna í Arion banka og Íslandsbanka. Þar fyrir utan má nefna langtímaskuld nýja Landsbankans við þann gamla,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Hér má sjá skýringarmynd sem birtist í áætlun Seðlabankans um afnám fjármagnshafta. Ekki hafa verið stigin skref ennþá í átt að áfanga II.
Í umfjöllun greiningardeildar Arion banka er sérstaklega horft til þess hversu miklum fjárhæðum svonefndur stöðugleikaskattur, eða útgönguskattur, gæti skilað í ríkiskassann. Samkvæmt umfjölluninni nemur sú upphæð allt að 529 milljörðum króna, ef horft er til 30 prósents skatts á heildareignir þrotabúanna.
„Skoðum þá þrotabú Glitnis og Kaupþings. Ef 25-75% skattur yrði lagður á innlendar eignir búanna gætu innheimst á bilinu 144-431 ma.kr. þaðan. Ef aftur á móti skatturinn yrði lagður á heildareignir mætti áætla að prósentan yrði töluvert lægri. Í okkar sviðsmynd gerum við ráð fyrir 10-30% skatti á heildareignir, sem myndi þá skila 176-529 ma.kr. úr búum Glitnis og Kaupþings,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Hér má sjá hversu miklu stöðugleikaskattur á heildareignir þrotabúanna myndi skila.