Í ályktun sem Almenningshlaupanefnd Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) hefur sent stjórn sambandsins, kemur fram gagnrýni á framkvæmd Reykjavíkurmaraþonsins. Málið má rekja til kæru hlauparans Péturs Sturla Bjarnasonar sem kærði Arnar Pétursson, Íslandsmeistara karla í maraþoni, fyrir meint svindl í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fór 23. ágúst síðastliðinn.
Pétur Sturla kærði úrslit hlaupsins til yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins, þar sem hann sakaði Arnar um að hafa svindlað með því að njóta liðsinnis tveggja hjólreiðamanna í hlaupinu, sem hafi hjólað með honum og hvatt hann áfram. Í 10. grein reglna Reykjavíkurmaraþonsins segir: „Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum (undanþága fyrir fylgdarmenn fatlaðra). Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem fylgja.“ Þá segir í 18. grein reglnanna: „Brot á ofangreindum reglum ógilda þátttökurétt í hlaupinu.“
Ein af þeim ljósmyndum sem lá til grundvallar kæru málsins. Hér má sjá hjólreiðamenn hjóla á undan Arnari Péturssyni.
Yfirdómnefnd viðurkenndi brot á reglum, en aðhafðist ekkert
Yfirdómnefndin viðurkenndi í niðurstöðu sinni að hjólreiðamenn hefðu vissulega fylgt Arnari eftir þrjá fjórðu hluta hlaupaleiðarinnar, sem hafi verið óheimilt samkvæmt reglum Reykjavíkurmaraþonsins. Dómnefndinni þótti engu að síður ósannað að Arnar hafi notið aðstoðar hjólreiðamannanna og vísaði kæru málsins frá. Í niðurstöðu dómnefndarinnar segir: „Svo virðist sem fylgd á hjólum sé atriði, sem stjórnendur Reykjavíkurmaraþons þurfi að taka á í framtíðinni. […] Það er álit yfirdómnefndar að reglur hlaupsins mætti birta með skýrari hætti m.a. í leikskrá hlaupsins ásamt því að vara um að brot á þeim geti leitt til brottvísunar úr hlaupinu.“
Niðurstöðu yfirdómnefndar var áfrýjað til dómstóls ÍSÍ. Íþróttabandalag Reykjavíkur, sem annast framkvæmd Reykjavíkurmaraþonsins, skilaði inn greinargerð til dómstólsins fyrir hönd yfirdómnefndar. Dómstóll ÍSÍ staðfesti síðar niðurstöðu yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins, ekki þótti sannað að þeir sem hjóluðu með Arnari hafi veitt honum aðstoð.
Niðurstöðu dómstóls ÍSÍ var áfrýjað til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, sem tók málið ekki til efnislegrar meðferðar sökum formgalla á kærunni sem send var dómstóli ÍSÍ. Það er athyglisvert fyrir þær sakir að dómstóll ÍSÍ tók málið til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir annmarka á kæru málsins.
Taka þarf af öll tvímæli um hvaða reglur gilda
Í áðurnefndri ályktun Almenningshlaupanefndar FRÍ segir að sambandið hafi lögsögu yfir götuhlaupum, sem þurfi að kynna betur meðal hlaupahaldara og þátttakenda. Þegar fram fari Íslandsmeistarmót í götuhlaupum skuli fara eftir reglum FRÍ um framkvæmd þeirra, sem byggja eigi á alþjóðlegum reglum um meistaramót í götuhlaupum. Þar er til að mynda skýrt kveðið á um blátt bann við hraðastjórnun.
Þá segir í ályktuninni að FRÍ hafi engu að síður enga aðkomu haft að framkvæmd Reykjavíkurmaraþonsins eða dómgæslu í hlaupinu. Þá hafi hlauphaldarar Reykjavíkurmaraþons kynnt sínar eigin reglur í hlaupinu, þar sem ekki var vísað sérstaklega í reglur FRÍ. Í ályktun Almenningshlaupanefndar segir ennfremur: „Taka þarf af öll tvímæli um hvaða reglum fara eigi eftir við framkvæmd meistaramóta í götuhlaupum. Nefndin leggur til að FRÍ skipi yfirdómara þegar um Íslandsmeistaramót í götuhlaupum er að ræða.“
Að lokum gerir Almenningshlaupanefnd athugasemd við kærumeðferð málsins. Kæran hafi aldrei komið til afgreiðslu hjá FRÍ, sem hefði átt að taka málið til afgreiðslu, þar sem FRÍ hafi lögsögu yfir Íslandsmeistarakeppni í götuhlaupum, áður en það fór til dómstóls ÍSÍ: Mikilvægt sé að farvegur kærumála sé skýr.