Það er auðvelt að taka undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að hækka laun þeirra sem lægstu launin hafa. Kröfurnar sem eru settar fram, um að hækka laun um meira en 20 prósent, eru í sögulegu samhengi miklar, en þó í samhengi við samning íslenska ríkisins við lækna fyrr á árinu.
Ekki þarf neinn snilling til þess að átta sig á því, að hagkerfið íslenska, líklega mesta verðbólguhagkerfi sem fyrir finnst meðal þróaðra ríkja, er viðkvæmt þegar kemur að kjarasamningunum og launakostnaði fyrirtækja og hins opinbera. En það þýðir ekki að fólkið á gólfinu eigi endalaust að bera kostnaðinn af meintum stöðugleika á herðum sínum. Allir verða að leggja sitt af mörkum.
Nú er mikilvægt að almenningur sendi bæði verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum, og síðan stjórnvöldum einnig, skýr skilaboð um að nýir samningar megi ekki verða samningar um að hækka verðbólgu upp úr öllu valdi. Það hefur gerst áður. Meira að segja oft, og alltaf með slæmum afleiðingum. Og það má ekki verða þannig að launahækkanir verði étnar upp af verðbólgunni í þetta skiptið.