Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna í þróunarmálum um alnæmi hefur verið náð, og það á undan áætlun. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sameiginlegrar áætlunar SÞ gegn alnæmi, sem var birt í gær í tengslum við alþjóðlegu þróunarsamvinnuráðstefnuna sem nú fer fram í Eþíópíu.
Þúsaldarmarkmiðið um alnæmi snéri að því að stöðva ætti útbreiðslu HIV-veirunnar og fækka smitum. Nýjum HIV-smitum hefur fækkað um 35 prósent og dauðsföllum tengdum alnæmi hefur fækkað um 41 prósent frá því að markmiðið var sett árið 2000.
Þá var markmið um að árið 2015 hlytu fimmtán milljón sjúklingar meðferð við HIV talið mjög óraunsætt, en það hafðist. Árið 2000 smituðust 8.500 manns á hverjum degi og 4.300 manns létust á dag af völdum alnæmis eða tengdra sjúkdóma. Nú er fjöldi nýrra smita um tvær milljónir, en var 3,1 milljón árið 2000. Ef ekkert hefði verið aðgert væru þessi fjöldi líklega nálægt sex milljónum í dag.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að heiminum hafi tekist markmið sitt, að stöðva útbreiðslu og snúa við þróun alnæmisfaraldursins. Nú þurfi allir að leggjast á eitt til að binda endi á alnæmisfaraldurinn. „Þetta þýðir að við erum að nálgast kynslóð lausa við alnæmi.“
SÞ segir skýrsluna sýna fram á að viðbrögðin við HIV hafi verið meðal gáfulegustu fjárfestinga sem ráðist hafi verið í á sviði alþjóðaheilbrigðismála og þróunarmála. Með áframhaldandi markvissum aðgerðum á næstu fimm árum verði hægt að stöðva alnæmi fyrir árið 2030.
„Fyrir fimmtán árum síðan var í gangi samsæri um þöggun. Alnæmi var sjúkdómur „hinna“ og meðferðir voru fyrir ríka en ekki fátæka,“ segir Michel Sidibé, framkvæmdastjóri sameiginlegu áætlunarinnar gegn alnæmi. „Við höfum sannað að þetta var ragnt, og í dag eru fimmtán milljónir manna í meðferð – fimmtán milljón velgengissögur.“
Næstum 75 prósent allra þungaðra kvenna sem lifa með HIV í heiminum hafa nú aðgang að lyfjum sem bæta lífsgæði þeirra og vernda börn þeirra fyrir smiti.
Eþíópía leiðir þegar kemur að því að tryggja að ekkert barn fæðist með HIV. Þar hefur smitum meðal barna fækkað um meira en 85 prósent á undanförnum 15 árum. Ban óskaði Eþíópíumönnum til hamingju með þann árangur og benti á að önnur ríki, eins og Senegal, hafi náð svipuðum árangri. „Við höfum stöðvað og snúið við þessum faraldri á heimsvísu. Engin þessarar velgengni hefði átt sér stað án hugrekkis þess fólks sem lifir með HIV. Við stöndum með ykkur.“
Ban minnti þó á að hvergi í heiminum sé alnæmi úr sögunni. Margir viðkvæmir hópar yrðu fyrir hindrunum í þessum málum, ungar konur og stúlkur, fólk sem þegar sé með HIV-veiruna, samkynhneigðir karlmenn, transfólk, fólk sem er í vændi og fólk sem sprautar sig með eiturlyfjum. „Enginn á að upplifa hindranir gegn rétti sínum til heilsu, virðingar og reisnar. Enginn ætti að deyja úr alnæmi.“