Hagnaður HS Orku á fyrri helmingi árs nam 75 milljónum króna, samanborið við 715 milljóna króna hagnað á sama tímabili 2014. Rekstrartekjur jukust þó milli tímabilanna um sjö prósent og námu 3.827 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins 2015. Virði afleiða, það er framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði, voru lækkaðar í bókum fyrirtækisins um 1.239 milljónir króna á fyrri helmingi ársins. Gengistap félagsins á tímabilinu nam 282 milljónum króna, samanborið við gengishagnað á fyrri helmingi árs 2014 upp á 221 milljón.
„Annars vegar er álverð lágt og hins vegar hefur dollarinn styrkst á móti krónu,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, í samtali við Kjarnann. Framtíðarvirði orkusölusamninga byggir á spám um álverð sem hafa verið lækkaðar að undanförnu, samhliða töluverðri lækkun heimsmarkaðsverð á áli.
„Reksturinn gengur vel, raforkusalan gengur vel og efnahagurinn er sterkur,“ segir Ásgeir og bætir því við að það skipti meiru máli en neikvæðar breytingar á fjármagnsliðum. „Rauntölur eru góðar,“ segir hann.
Í tilkynningu um uppgjörið til Kauphallarinnar kemur fram að tekjur jukust milli fyrri árshelminga 2015 og 2014 um 244 milljónir en rekstrarkostnaður jókst um 98 milljónir. „Tekjur hafa aukist bæði frá smásölumarkaði og frá stórnotendum. Rekstrarkostnaður orkuvera hefur aukist nokkuð, orkukaup hafa aukist talsvert og flutningskostnaður hækkað sömuleiðis,“ segir í tilkynningunni. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) jókst um 13 prósent milli tímabili og nam alls 1.515 milljónum á fyrri helmingi árs 2015. Eiginfjárhlutfall HS Orku í lok júní 2015 var 58,8 prósent.
HS Orka framleiðir raforku og selur í smásölu og til stórnotenda. Meðal eigna fyrirtækisins er 30 prósent hlutur í Bláa lóninu. HS Orka er í einkaeigu, félagið Magma Energy á tvo þriðju hluta hlutafjár í HS Orku og félagið Jarðvarmi, sem aftur er í eigu lífeyrissjóða, á þriðjung hlutafjár.
Framtíðarvirði lækkar
HS Orka selur Norðuráli raforku til álframleiðslu, verðið í dollurum, og er tengt álverði á heimsmarkaðsverði. Styrking dollarsins og lækkun álverðs hefur því neikvæð áhrif á tekjur HS Orku. Þess vegna er 282 milljóna gengistap bókað á fyrri helmingi árs og framtíðarvirði orkusölusamninga lækkað um 1.200 milljónir króna í bókum HS Orku.
Fjallað er um þróun álverðs í Fréttablaðinu í dag, þar sem fram kemur að heimsmarkaðsverðs hefur lækkað um tæp 18 prósent frá því í nóvember 2014.
Mikill kostnaður við gerðardóm
Norðurál, viðskiptavinur HS Orku, hefur lengi unnið að byggingu álvers í Helguvík. Samningar voru undirritaðir árið 2007 um að HS Orka veiti álverinu raforku. Þegar álverið reis ekki taldi HS Orku samnginginn ekki lengur í gildi. Því er Norðurál ósammála og fer málið fyrir sérstakan gerðardóm. Hann kemur saman í apríl 2016. HS Orku getur ekki selt orkuna annað áður en niðurstaða gerðardóms liggur fyrir, en orkusölusamningurinn sem um ræðir er upp á 150 MW af orku. Hluti raforku HS Orku er þannig í dag bundin í óbyggðu álver.
Í samtali við Kjarnann vildi Ásgeir ekki segja nákvæmlega hvað gerðardómurinn myndi kosta HS Orku, en sagði hann gæti farið „í þriggja stafa tölu“ og á hann þá við að kostnaður geti numið hundruðum milljóna króna.