Félög eða sjóðir tengdir vogunarsjóðnum Elliott Management hafa eignast kröfur á fallna íslenska banka undanfarin misseri. Kjarninn hefur fengið það staðfest að þeir aðilar eigi óverulegar kröfur á þrotabú Landsbankans. Heimildarmenn Kjarnans fullyrða auk þess að sömu aðilar, annaðhvort í gegnum beina eignaraðild á kröfum eða með því að láta alþjóðlega banka halda á kröfunum fyrir sig, séu orðnir umsvifamiklir innan annars þrotabús.
Talsmenn hinna þriggja stóru þrotabúa; Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, vildu ekki tjá sig um einstakar kröfur eða eigendur þeirra opinberlega þegar Kjarninn sendi þeim fyrirspurn um málið. Kjarninn sendi fyrirspurn til Elliott Management og spurðist fyrir um umsvif sjóðsins á Íslandi. Þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_17/10[/embed]
Hinn dæmigerði hrægammasjóður
Vogunarsjóðurinn Elliott Management er kannski ekki nafn sem hvert mannsbarn kannast við. Þvert á móti hljómar hann eins og hver annar slíkur sjóður. En það er hann ekki. Eitt sem sker hann frá öðrum er sú staðreynd að hann ávaxtar fé viðskiptavina sinna um 14,6 prósent að meðaltali á ári, sem er mun meira en allflestir samkeppnisaðilar hans.
Hin ástæðan fyrir því að sjóðurinn er öðruvísi er að hann hefur einbeitt sér að því að fjárfesta í skuldum ríkja, eða fyrirtækja innan ríkja, sem glíma við neyð og jafnvel greiðsluþrot. Hann er því holdgervingur hugtaksins hrægammasjóður.
Elliott-sjóðurinn gefur sig út fyrir að fara einvörðungu inn í ríki sem hafi efni á því að greiða skuldir sínar en hafi ákveðið að gera það ekki. Í ljósi þess að uppgjör íslensku þrotabúanna snýst einvörðungu um útdeilingu fjármagns sem sannarlega er til inni í þeim, hversu mikið fer til kröfuhafanna og hversu mikið situr eftir á Íslandi, fellur Ísland sannarlega innan þess mengis sem Elliott-sjóðurinn setur sér.
Vogunarsjóðurinn hefur gert sig gildandi á Argentínu, og hótar þjóðinni nú allsherjar þjóðargjaldþroti.
Lestu ítarlega umfjöllun um Elliott Management í nýjustu útgáfu Kjarnans.