Ingjaldur Hannibalsson prófessor við Háskóla Íslands varð bráðkvaddur á heimili sínu í Reykjavík laugardaginn 25. október, 62 ára að aldri. Nemendum hans og samstarfsfólki við Háskóla Íslands var tilkynnt um andlátið í gær.
Hann hóf stundakennslu við Háskóla Íslands árið 1978 og varð fastráðinn dósent árið 1982.
Ingjaldur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1971, prófi í eðlisfræði og stærðfræði frá HÍ árið 1974, M.Sc. prófi 1975 og Ph.D. prófi árið 1978 í iðnaðarverkfræði frá Ohio State University.
Á níunda áratugnum sinnti hann öðrum störfum og var m.a. forstjóri Iðntæknistofnunar, forstjóri Álafoss og framkvæmdastjóri Útflutningsráðs Íslands. Árið 1993 byrjaði hann í fullu starfi við Háskóla Íslands og varð prófessor við Viðskipta- og hagfræðideild árið 1997.
Foreldrar Ingjalds voru Hannibal Valdimarsson og Hólmfríður Ingjaldsdóttir.