Fanney Birna Jónsdóttir verður nýr aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og Andri Ólafsson, sem verið hefur fréttastjóri á Fréttablaðinu undanfarin misseri, mun verða nýr ritstjóri Íslands í dag. Andri tekur við þeirri stöðu af Sindra Sindrasyni, sem mun áfram starfa hjá 365 við fréttalestur og dagskrárgerð. Þá taka Ólöf Skaftadóttir og Viktoría Hermannsdóttir við sem ritstjórar helgarblaðs Fréttablaðsins af Erlu Björg Gunnarsdóttir sem mun sinna almennum fréttaskrifum. Kristín Þorsteinsdóttir verður áfram ritstjóri Fréttablaðsins. Frá þessum skipulagsbreytingum innan 365 miðla, stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtækis landsins, er greint á Eyjunni.
Andri Ólafsson.
Kjarninn greindi nýverið frá því að Ísland í dag yrði stokkað upp í annað sinn á skömmum tíma. Í byrjun apríl síðastliðins var tilkynnt um miklar breytingar á þættinum. Í þeim fólst meðal annars að þættirnir yrðu að að jafnaði lengri en áður, eða um 40 mínútur að lengd, og þeir gerðir í meiri samvinnu við fréttastofu 365. Auk þess yrðu sérstakir þættir um stjórnmál, efnahagsmál og viðskiptalíf undir hatti Íslands í dag. Þannig átti þátturinn alltaf að fjalla um málefni líðandi stundar og tengjast betur þjóðmálaumræðunni en hann hafði gert undanfarin ár.
Áhorf á hið nýja Ísland í dag hefur ekki staðið undir væntingum. Í lok febrúar var meðaláhorf á þáttinn yfir 16 prósent og viku áður en breytingar á honum voru innleiddar horfðu 14,1 prósent á hann. Samkvæmt mælingum Gallup horfðu tólf prósent á Ísland í dag fyrstu vikuna eftir breytingar og 8,8 prósent vikuna eftir það. Í síðustu viku júnímánaðar var áhorfið sjö prósent. Á meðal þeirra sem hverfa á braut er Heiða Kristín Helgadóttir, sem stýrði þjóðmálaþættinum Umræðunni, en samningur hennar við 365 miðla rann út í lok júní.
Miklar breytingar hjá Fréttablaðinu á skömmum tíma
Miklar breytingar hafa verið hjá Fréttablaðinu, mest lesna dagblaði landsins, undanfarin misseri. Snemma árs 2013 var Mikael Torfason ráðinn ritstjóri blaðsins við hlið Ólafs Stephensen og næstu misserin hættu fjölmargir á ritstjórn blaðsins. Meðal þeirra var Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri blaðsins. Þá var nokkrum fjölda sagt upp.
Ólafur Stephensen, fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins.
Í ágúst 2014 var Mikael síðan sagt upp störfum og Ólafur Stephensen hætti skömmu síðar. Ólafur ritaði áður leiðara þar sem hann útskyrði af hverju honum var ekki stætt í starfi. Við starfi ritstjóra tóku Kristín og Sigurjón M. Egilsson. Hann hætti síðan í mars 2015.
Samhliða því að Sigurjón hætti var gerð sú skipulagsbreyting að Andri Ólafsson, Hrund Þórsdóttir og Kolbeinn Tumi Daðason urðu aðstoðarritstjórar fréttastofu 365 miðla. Nú hefur skipulaginu verið breytt enn einu sinni.
Í gær greindi Kjarninn frá því að Kolbeinn Óttarsson Proppé, blaðamaður og leiðarahöfundur á Fréttablaðinu, hafi sagt upp störfum og muni hætta um næstu mánaðarmót. Kolbeinn hefur leitt umfjöllun Fréttablaðsins um stjórnmál um árabil, með hléum. Hann starfaði hjá blaðinu frá 2008 til 2013 og réð sig þangað aftur í upphafi árs 2015. Kolbeinn var einnig hluti þess teymis sem fór yfir stjórnmálaástandið í sjónvarpsþættinum Umræðan á Stöð 2, sem Heiða Kristín Helgadóttir stýrði, en hefur nú verið tekinn af dagskrá.