Eignarhaldsfélaginu Andvöku hefur verið slitið og allt eigið fé þess greitt eigendum félagsins í samræmi við lög. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu skilanefndar Andvöku sem birtist á vef félagsins. Arion banki er stærsti einstaki eigandi félagsins, og fær 75 milljónir króna við slit á félaginu.
Í tilkynningunni kemur fram að tæplega 8.300 fyrrum tryggingartakar hjá Líftryggingafélaginu Andvöku fái næstu daga greidda eignarhluti sína í Eignarhaldsfélaginu Andvöku í hlutfalli við iðgjaldagreiðslur sínar á árunum 1989 og 1990, um 187 milljónir króna. Fyrstu ávísanirnar voru póstlagðar í dag að því er segir í tilkynningu.
Lægsta greiðsla er fáeinar krónur en sú hæsta hátt í 3,4 milljónir króna. Langflestir fá greitt á bilinu 5.000 til 50.000 krónur.
Tilkynningin fer hér orðrétt á eftir:
Á fundi fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f. (Andvaka) hinn 30. október 2014 var samþykkt frumvarp til úthlutunargerðar vegna slita á félaginu. Úthlutunargerðin felur í sér að allt eigið fé Andvöku, kr. 573.950.132, skal greitt til eigenda félagsins í samræmi við eignarhlutdeild þeirra.
Samkvæmt samþykktum félagsins og úthlutunargerð eru eigendur Andvöku (1) Arion banki hf. á grundvelli samkomulags við Gift fjárfestingarfélag ehf. með 50,11% hlut, (2) tilgreindir tryggingartakar Andvöku árin 1989 og 1990 í réttu hlutfalli við iðgjaldagreiðslur þeirra þau ár með 40,73% hlut, og (3) Andvökusjóðurinn sem hefur tekið við réttindum fyrrum tryggingartaka eftir því sem þau hafa fallið niður vegna andláts eða aldurs tryggingartaka samkvæmt ákvæðum samþykktanna, með 9,16% hlut.
Samkvæmt áliti ríkisskattstjóra ber skilanefnd við slit félagsins að standa skil á 20% fjármagnstekjuskatti til ríkissjóðs, og nemur skattgreiðslan kr. 114.730.026. Að teknu tilliti til afdregins fjármagnstekjuskatts munu hinir tilgreindu fyrrverandi tryggingartakar Andvöku fá greitt alls kr. 187.019.535 í réttu hlutfalli við iðgjaldagreiðslur þeirra árin 1989 og 1990. Umræddir tryggingartakar eru 8295 talsins og eiga rétt til um 40,73% þess sem til úthlutunar er. Um er að ræða 8242 einstaklinga og dánarbú og 53 lögaðila. Af persónuverndarástæðum er ekki unnt að birta opinberlega lista yfir greiðslur til tryggingartaka.
Á næstu dögum verða þeim sem hafa þekkt heimilisfang hjá Þjóðskrá sendar ávísanir vegna eignarhlutdeildar þeirra. Meðaltals fjárhæð ávísana er um kr. 22.500 og fá langflestir greiðslu á bilinu frá kr. 5.000-50.000. Lægsta greidda fjárhæð er kr. 8 og fá 121 aðilar greitt undir kr. 1.000. Hæsta greidda fjárhæðin er um kr. 3.370.000 og fá 45 aðilar greitt yfir kr. 100.000.
Geymslugreitt verður hjá Landsbankanum fyrir þá rétthafa sem hafa óþekkt heimilisfang hjá Þjóðskrá eða innleysa ekki ávísanir sínar, og geta hlutaðeigandi vitjað greiðslu sinnar þar gegn framvísun skilríkja og reikningsnúmers sem aðgengilegt verður hjá skilanefnd.
Vegna ákvæða í samþykktum Andvöku gerir úthlutunargerðin ráð fyrir að til Andvökusjóðsins hafa runnið eignarréttindi þeirra tryggingartaka sem létust fyrir 10. mars 2009 eða urðu 72 ára fyrir árslok 2010. Áréttað skal að úthlutunargerðin og greiðslur til rétthafa gera ráð fyrir að enginn tryggingartaki hefur misst rétt til Andvökusjóðsins vegna þess tíma sem slitaferlið hefur tekið, og miðast réttindavinnslan við þá dagsetningu sem endanleg ákvörðun var tekin um slit Andvöku hinn 11. mars 2011.
Í samræmi við eignarhlutdeild Andvökusjóðsins fær sjóðurinn kr. 42.085.375. Samkvæmt samþykktum félagsins ákveður fulltrúaráð Andvöku ráðstöfun Andvökusjóðsins og var ákveðið að andvirði sjóðsins skyldi renna til Sambands íslenskra samvinnufélaga til verkefna á sviði fræðslu um samvinnustarf, félagslegrar uppbyggingar og menningarmála.
Arion banki hf. fær á grundvelli samkomulags við Gift fjárfestingarfélag ehf. greitt alls kr. 75.115.1995 eftir að tekið hefur verið til samkomulags um skuldajöfnun vegna skulda Giftar fjárfestingarfélags ehf. við Andvöku.
Á vefslóðinni www.ehfandvaka.is er unnt að nálgast frekari upplýsingar sem og að koma á framfæri fyrirspurnum til skilanefndar fram til 5. apríl 2015, en þá er ráðgert að skilanefnd ljúki endanlega störfum. Í kjölfar útgreiðslna mun skilanefnd ljúka störfum sínum lögum samkvæmt og óska þess að félagið verði afskráð.
Virðingarfyllst,
Skilanefnd Eignarhaldsfélag Andvöku g.f.
Guðsteinn Einarsson
Gunnlaugur Úlfsson hdl.
Ólafur Friðriksson
Ragnheiður Þorkelsdóttir hdl.