Argreiðslur og endurkaup hjá félögum á aðallista Kauphallar Íslands námu 28,4 milljörðum króna í ár, vegna árangurs sem félögin náðu í fyrra. Þær jukust um 64 prósent á milli ára, en arðgreiðslur til hluthafa og endurkaup á bréfum námu 17,3 milljörðum króna árið 2014, vegna rekstrarársins 2013. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Þar er haft eftir Jóhanni Viðari Ívarssyni, sérfræðingi hjá IFS-greiningu, að vísbendingar séu um að arðgreiðslur og endurkaup skráðra félaga á aðallista Kauphallarinnar hafi náð hámarki og verði minni á næsta ári. IFS-greining áætlar að arðgreiðslur og uppkaup félaga á bréfum muni nema 24,3 milljörðum króna á næsta ári, vegna ársins 2015. Með endurkaupum á bréfu er m.a. vísað til kaupa félaga á eigin bréfum, sem fækkar hlutum í því og eykur hlutfallslega stærð annarra eigenda.
Markaðurinn upp um tæp 40 prósent
Eigendur hlutabréfa hagnast ekki bara því að fá háan arð af bréfum sínum. Á þessu ári hefur Úrvalsvísitalan, sem mælir hækkun félaga á markaði, hækkað um 39,3 prósent. Virði bréfanna, sem ganga kaupum og sölum á markaði, hefur því hækkað gríðarlega.
Ef horft er á stöðuna líkt og hún var 16. október síðastliðinn hafði gengi N1 hækkað um 88,8 prósent frá áramótum, gengi bréfa í Marel um 55,8 prósent, gengi bréfa í Icelandair um 50 prósent, í móðurfélagi Vodafone um 44,3 prósent, í fasteignafélaginu Reginn um 31,6 prósent og í HB Granda um 26,2 prósent. Hlutabréf í Sjóvá, Eimskipum, Högum og VÍS höfðu einnig hækkað um 4,4 -9,5 prósent á árinu. Eina félagið sem skráð er í kauphöllina sem er minna virði í dag en það var um síðustu áramót er tryggingafélagið TM.
Kjarninn fjallaði ítarlega um hækkun hlutabréfa á Íslandi í fréttaskýringu sem birtist í síðustu viku.