Það segir sitt um átökin sem einkenna umræðu um peningastefnuna í landinu og ákvörðun vaxta á hverjum tíma, að nú er umræðan um að árið 2007 sé að koma aftur orðin sprelllifandi. Þetta var eitt af því sem var til umræðu á kynningarfundi Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í gær, vegna þeirrar ákvörðunar að hækka stýrivexti um 0,5 prósentustig, upp í 5,5 prósent.
Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, spurði Má Guðmundsson seðlabankastjóra hvort nú væri að teiknast upp staða þar sem gæti orðið mikið innflæði af fjármagni, gengið myndi styrkjast, og ójafnvægi skapast í þjóðarbúskapnum. Már sagði allt aðrar aðstæður vera uppi nú og að Seðlabankinn hefði tekið markaðsöflin að verulegu leyti úr sambandi, og væri ekki að leyfa krónunni að styrkjast. Það væri gert meðal annars til þess að búa í haginn fyrir útboðin sem eru liður í losun fjármagnshafta.
Eins og fram kom á kynningarfundi í Hörpunni, þegar losunaráætlunin var kynnt, þá er stefnan til framtíðar litið að gengi krónunnar ráðist af raunhagkerfinu, innflæði og útflæði fjármagns.
Spurning sem vaknar nú, og er eðlileg pæling í ljósi þeirra tíðinda sem framundan eru þegar kemur að afnámi haft, er hvernig gengi krónunnar mun þróast í þessum ólgusjó sem framundan er. Er gengi krónunnar að fara styrkjast verulega eða verður gengið stillt af á mátulegum stað fyrir útflutningshlið hagkerfisins? Hvernig sem fer, þá er líklega best að vona að árið 2007 sé ekki að fara koma aftur...