Hagnaður Arion banka nam rúmum 9,7 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, sem er tæpum tveimur milljörðum meira en á sama tíma í fyrra.
Áhrif sölunnar á Valitor spila stóran þátt í hagnaðinum, en þau komu að fullu fram á öðrum fjórðungi ársins og nam söluhagnaðurinn 5,6 milljörðum sem þýðir að hagnaður af reglulegum rekstri bankans nam um 4,1 milljarði króna.
Samanlagður hagnaður bankans á fyrstu sex mánuðum ársins nemur 15,53 milljörðum króna.
Arðsemi eiginfjár bankans var 21,8 prósent á öðrum ársfjórðungi, en bankinn er með markmið um 13 prósent arðsemi eiginfjár. Á fyrstu sex mánuðum ársins nam arðsemi eiginfjár 16,9 prósent. Vaxtamunur bankans var 3,1 prósent á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 2,9 prósent á sama tíma í fyrra.
Í tilkynningu frá bankanum er haft eftir Benedikt Gíslasyni bankastjóra að afkoman hafi verið góð og mestu skipti að kjarnastarfsemi bankans haldi áfram að þróast með jákvæðum hætti, auk þess sem salan á Valitor hafi klárast.
„Kjarnatekjur bankans aukast um tæp 24% á milli ára ef horft er til annars ársfjórðungs og vegur aukning í vaxtatekjum þar þyngst. Jafnframt náðist góður árangur á fjórðungnum þegar kemur að þóknanatekjum sem hafa ekki verið hærri á einum fjórðungi og má rekja það meðal annars til mikilla umsvifa í fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu. Á móti kemur að aðstæður á fjármálamörkuðum hafa verið krefjandi sem hefur neikvæð áhrif á fjármunatekjur bankans,“ er haft eftir Benedikt í tilkynningu bankans.